Landsvirkjun stundar margháttaðar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum, jarðfræði og fjölmörgu öðru. Rannsóknir og vöktun fara fram á stórum hluta landsins og helsu niðurstöðum gerð skil í umhverfisskýrslu fyrirtækisins.
Tölulegt bókhald og skýrslur
Ábyrgð Landsvirkjunar gagnvart umhverfi sínu og samfélagi er mikil. Því er mikilvægt að fyrirtækið sé opið og gagnsætt. Í starfi sínu leggur Landsvirkjun áherslu á að greina og þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og upplýsa um þau. Fyrirtækið horfir gagnrýnum augum á eigin starfsemi ásamt því að taka til greina gagnrýni annarra. Með því vill Landsvirkjun stuðla að opnum samskiptum og betri nýtingu þeirra orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir.
Árangur í umhverfismálum
Frá árinu 2006 hefur Landsvirkjun gefið út árlegar umhverfisskýrslur þar sem ítarlega er fjallað um umhverfisstjórnun fyrirtækisins, vöktun umhverfisþátta og markmið fyrirtækisins í umhverfismálum.
Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2013 er sú fyrsta sem er eingöngu gefin út á rafrænu formi. Með rafrænni útgáfu leitast Landsvirkjun eftir því að auka aðgengi almennings að upplýsingum sem snúa að starfsemi fyrirtækisins.
Landsvirkjun leggur áherslu á heiðarlega og opinskáa framsetningu gagna um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum.
Útgáfa umhverfisskýrslu er liður í að kynna stefnu Landsvirkjunar í umhverfismálum á opinberum vettvangi. Með opnum og gagnsæjum samskiptum vill Landsvirkjun stuðla að málefnalegri umræðu um alla þætti starfsemi fyrirtækisins.
Tölulegt bókhald
Í tölulega bókhaldinu gefur að líta töflur og ítarlegri tölulegar upplýsingar um þau atriði sem fjallað er um í fyrri hlutum skýrslunnar. Tölulega bókhaldið er unnið upp úr bókhaldsforritum Landsvirkjunar, mannauðskerfi, jarðvarmagrunni, gagnagrunni Landsnets um orkuvinnslu og Landnýtingargrunni og bindibókhaldi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hægt er að sækja tölulega bókhaldið hér.
Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001. Kerfið felur meðal annars í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og greiningu á umhverfisáhrifum af starfsemi fyrirtækisins. Tölulegt bókhald er rýnt af verkfræðistofunni EFLU.
Aðgengi að útgefnu efni
Ár hvert vinnur Landsvirkjun að ítarlegum rannsóknum og umfangsmikilli vöktun á áhrifasvæðum allra aflstöðva fyrirtækisins. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga og þeim gerð skil í útgefnum skýrslum á vegum Landsvirkjunar. Flestar skýrslurnar hafa verið gerðar aðgengilegar á Gegni.is, landskerfi bókasafna. Aðrar skýrslur má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.
Með rafrænni útgáfu á umhverfisskýrslu Landsvirkjunar vill fyrirtækið auka aðgengi almennings að upplýsingum um starfsemi fyrirtækisins.
Í umhverfisskýrslu Landsvirkjunar 2013 má nú nálgast skýrslur á rafrænu formi er varða umhverfismál fyrirtæksins. Í hverjum undirkafla fylgja krækjur á viðeigandi skýrslur auk þess sem efnið í heild sinni er listað í kaflanum útgefnar skýrslur.
Í sumar, líkt og fyrri ár, opnaði Landsvirkjun aflstöðvar sínar fyrir gesti og komu yfir 23 þúsund manns í heimsókn sem vildu kynna sér starfsemi fyrirtækisins.
Opin og gagnsæ samskipti
Landsvirkjun er fyrirtæki í eigu ríkisins sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Þess vegna er brýnt að fyrirtækið hafi skilning á sjónarmiðum og hagsmunum þeirra sem starfsemi þess hefur áhrif á og stuðli að opinni og málefnalegri umræðu.
Landsvirkjun leggur mikla áherslu á góð samskipti við heimamenn sem lifa og starfa á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Starfsfólk Landsvirkjunar er í góðu sambandi við sveitarfélög, félagasamtök á svæðunum, til dæmis veiðifélög, landeigendur og ferðaþjónustuaðila sem geta orðið fyrir áhrifum af starfsemi fyrirtækisins.
Starfsemi Blöndustöðvar fékk hæstu einkunn fyrir samskipti og samráð við heimamenn og hagsmunaaðila samkvæmt alþjóðlegum matslykli, HSAP.
Samskipti og samráð við heimamenn var einn þeirra efnisflokka sem Blöndustöð fékk hæstu einkunn fyrir í HSAP, alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Niðurstaða úttektarinnar er að Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu starfsvenjur í 14 efnisflokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar.
Á Norðausturlandi hafa síðustu ár verið haldnir opnir fundir um virkjunarframkvæmdir í Bjarnarflagi en opin umræða varð meðal annars til þess að mat á umhverfisáhrifum fyrir jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi var rýnt og opnað fyrir möguleika á endurskoðun.
Þátttaka heimamanna og hagsmunaaðila á opnum fundum Landsvirkjunar veitir fyrirtækinu mikilvæga innsýn í sjónarmið hagsmunaaðila og almennings. Virk þátttaka allra aðila stuðlar að opnum samskiptum og gefur Landsvirkjun tækifæri til að gera enn betur á sviði umhverfismála.
Til að stuðla að betri samskiptum var á árinu lögð aukin áhersla á opna árs- og haustfundi. Sýnt var beint af fundunum á vef Landsvirkjunar þar sem allt fundarefni var gert aðgengilegt.