Section
Segment

Ólíkt mörgum ríkjum heims er Ísland ríkt af orkuauðlindum. Tækifærin sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir eru því mikil og með því að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar getur ávinningurinn fyrir íslenskt samfélag orðið verulegur. 

Við höfum því mikilvægu hlutverki að gegna við að stuðla að orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag. Enda þótt fyrirtækið vinni rafmagn eingöngu úr endurnýjanlegum orkugjöfum veldur starfsemin óhjákvæmilega umhverfisraski og áhrifum á lífríki. Okkur ber því að stíga varlega til jarðar með hagkvæmni, sátt og sjálfbærni að leiðarljósi.

Landsvirkjun vill vera í fararbroddi á sviði umhverfismála. Starfsfólk fyrirtækisins leitar í smáu og stóru að þeim lausnum sem leiða af sér hámarksafrakstur af orkuauðlindinni en jafnframt eins takmörkuð umhverfisáhrif og kostur er. Með rannsóknum og vöktun getum við öðlast þekkingu á auðlindinni, lágmarkað neikvæð áhrif og hámarkað jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins.

Gildi þeirrar þekkingar sem við búum yfir varð sýnilegt á árinu. Eftir kalt og þurrt sumar stóðu vatnsmiðlanir fyrirtækisins lágt. Þekking á umhverfinu sem við störfum í gerði fyrirtækinu kleift að bregðast við óvenjulegum aðstæðum. Rennslisstýringu var beitt til að hámarka nýtingu miðlana og fyrirbyggjandi aðgerðir við Hálslón komu í veg fyrir sandfok inn á hálendið.

Næstu verkefni fyrirtækisins eru fyrirhuguð á Norðausturlandi, í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum, sem bæði voru flokkuð í nýtningarflokk í Rammaáætlun. Rannsóknir benda til að svæðið bjóði upp á mikla möguleika til jarðvarmavinnslu og miðar undirbúningsvinna að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Umhverfismál eru þýðingarmikill þáttur í allri okkar starfsemi, allt frá hugmyndastigi virkjana til orkuvinnslu. Það er markmið fyrirtækisins að vera leiðandi í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi. Með hagkvæmri vinnslu í sátt við umhverfi og samfélag getum við skapað orku til framtíðar.