Section
Segment

Öllum framkvæmdum Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask sem getur haft áhrif á lífríki og náttúru. Við stærri framkvæmdir geta sjónrænu áhrifin orðið umtalsverð og því leggur Landsvirkjun áherslu á að hönnun nýframkvæmda skapi heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrlegs landslags.

Ásýnd lands og umhverfis

Framkvæmdum, rannsóknum og byggingu nýrra mannvirkja fylgir jarðrask sem hefur áhrif á ásýnd landsins í kring. Slíkt jarðrask verður meðal annars vegna gerðar uppistöðulóna, stíflna og veituleiða, lagningar vega og jarðstrengja, aðstöðusköpunar og jarðborana. Áhrifin eru mismunandi og ráðast til að mynda af landslagseinkennum og nýtingu landsvæða.

Breytingar á ásýnd lands geta haft mikil áhrif á hvernig fólk skynjar umhverfi sitt. Skynjunin ræðst meðal annars af upplifun og tilfinningu en einnig af staðþekkingu, menningarlegum bakgrunni og þörfinni fyrir að tilheyra sínu nánasta umhverfi. Fjölbreytni, sérstaða, fegurð og mikilfengleiki landslags ásamt gildi þess til útivista eru lykilatriði í upplifun fólks á náttúrunni og umhverfi sínu.

Umræða um sjónræn áhrif mannvirkja er nokkuð ný af nálinni hér á landi þrátt fyrir að landslag sé veigamikill þáttur af ímynd þjóðarinnar. Árið 2012 gerðist Ísland aðili að landslagssáttmála Evrópusambandsins og hefur það haft jákvæð áhrif á þróun þessa málaflokks hér á landi. Hlutverk samningsins er að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags og er það vilji Landsvirkjunar að taka mið af því við hönnun mannvirkja og framkvæmdir á vegum fyrirtækisins.

Umhverfisáhætta er metin í öllum verkefnum Landsvirkjunar og gripið er til viðeigandi aðgerða til að draga úr líkum á að slík hætta skapist.

Section
Segment

Nýleg verkefni er varða sjónræn áhrif

  • Við undirbúning þriggja vatnsaflsvirkjana á veituleið Blönduvirkjunar á Auðkúluheiði var unnin landslagsgreining á veituleið Blönduvirkjunar í tengslum við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra virkjana. Markmið landslagsgreiningarinnar er að greina landslagsheildir og meta gildi þeirra. Niðurstöður greiningarinnar verða síðan notaðar í mati á umhverfisáhrifum til að meta hversu viðkvæmt svæðið er fyrir framkvæmdum. Landslagsgreiningin gæti til að mynda leitt í ljós nauðsyn mótvægisaðgerða til að tryggja sem minnsta röskun á gæðum og ásýnd landsins.
  • Árið 2012 var ráðinn langslagsarkitekt til starfa hjá Landsvirkjun. Helstu viðfangsefni hans snúa að landmótun, ásýnd umhverfis, útliti mannvirkja og vinnu sem snýr að landslagsgreiningu í samræmi við landslagssáttmála. Markmiðið er að horfa til sjónrænna áhrifa mannvirkja fyrr í hönnunarferlinu en tíðkast hefur.
  • Landsvirkjun hefur tekið þátt í að þróa nýja aðferðafræði sem tengist landslagsgreiningu. Þar er lagt mat á gildi íslensks landslags og áhrif nýframkvæmda á það. Við þróun aðferðafræðarinnar er notaður alþjóðlegur gagnagrunnur sem nær yfir viðurkenndar aðferðir við greiningu á landslagi. Með íslenskri aðferðafræði skapast tækifæri til að endurbæta og festa í sessi verklag við ákvarðanatöku, skipulag, hönnun og framkvæmdir við landslagsfrágang og útlit mannvirkja.
Section
Segment

Sjónræn áhrif við Bjarnarflag og Þeistareyki

Árið 2013 unnu tveir háskólanemar í arkitektúr og landslagsarkitektúr að rannsóknarverkefnum á vegum Landsvirkjunar við landmótun og útlit. Rannsóknirnar tóku meðal annars til jarðrasks, lagna, borsvæða, borholuhúsa, hljóðdeyfa og vega á fyrirhuguðu orkuvinnslusvæði í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum.

Unnið var að útliti borholuhúsa sem falla vel að landslagi. Gerð útfærsla að göngubrú yfir lögn, bæði til að fegra og til að auka aðgengi almennings að sjálfu virkjanasvæðinu og unnið að útfærslum að borplani sem er í takt við umhverfið.

  • bjarnarmynd-hönnun.jpg
  • theistamynd.jpg
  • gongubru_ogskiliti_tekin.jpg
  • hljoddeyfir.jpg
  • ofana_mynd.jpg
Section
Segment

Landslagssamningur Evrópuráðsins

Í júlí 2012 gerðist Ísland aðili að Evrópska landslagssamningnum (e. The European Landscape Convention) sem var upphaflega samþykktur árið 2000. Markmið samningsins er að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags og koma á fót evrópsku samstarfi þar um.

Í samningnum er landslag skilgreint sem svæði sem fólk skynjar að hafi orðið til af náttúrunnar hendi og/eða með mannlegri íhlutun. Áhersla er lögð á sjálfbæra þróun sem byggist á jafnvægi og samræmi á milli samfélags, atvinnulífs og umhverfis. Þátttaka í landslagssamningnum er viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda um að hlúa að málaflokknum með því að veita landslagi ákveðinn sess og viðurkenningu í lögum og reglugerðum. Þátttakan nær einnig til mótunar og eftirfylgni á stefnu um verndun, nýtingu og skipulag landslags og til þess að tryggja aðkomu almennings að slíkri mótun. Einnig verður hugað að landslagi við byggðaþróun, menningarmál, landbúnað, félagsmál og efnahagsmál.

Upphafið að landslagssamningnum á rætur sínar að rekja til umfjöllunar ráðgjafaráðs Evrópuráðsins um vandamál Evrópu. Tilurð samningsins má rekja til CEMAT (Council of Europe Conference of Ministers responsible for Spatial/Regional Planning) í Bonn og til fyrsta heimsþings umhverfismála sem haldið var í Stokkhólmi 1970 en í framhaldi af því voru gerð drög að sáttmálanum. Landslagssamningurinn var loks undirritaður í Flórens árið 2000 og tók gildi árið 2004 .

Erlendis hefur skapast hefð fyrir notkun ákveðinna aðferða til að greina landslag sem hafa þróast um áratugaskeið. Helstu lönd sem litið er til varðandi landslagsgreiningu eru Austurríki, Ástralía, Bretland, Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Holland, Kanada, Noregur, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland. Áhersluþættir í landslagsgreiningu eru meðal annars kerfisbundin skráning og greining með sjónrænum gátlistum og reyndum aðferðum sem leiða að niðurstöðum. Töluleg viðmið (bæði hlutlæg og huglæg) eru notuð til að meta gildi og áhrif á landslag sem byggð eru m.a. á landslagseinkennum, almennu ástandi, sögu og menningu, gildismati almennings, umfangi framkvæmdar, tímalengd og eðli áhrifasvæðis og vali á milli mismunandi kosta. Þróast hefur mikilvægur aðferðargrunnur sem Landsvirkjun mun nýta í þróunar- og rannsóknarvinnu um sjónræn áhrif og er jafnframt talið mikilvægt að þróa aðferðafræði sem hentar aðstæðum á Íslandi.

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá lista yfir skýrslur sem komu út á árinu eða fjalla um verkefni tengd sjónrænum áhrifum, landmótun og landslagsgreiningum. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.