Section
Segment

Rof í farvegum áa og úr bökkum lóna getur orðið þegar breytingar verða á vatnsrennsli í ám og á vatnshæð lóna. Einnig getur álag frá vindi, öldum og vatni valdið rofi. Þá veldur framburður jökuláa setmyndun í árfarvegum og lónum. Landsvirkjun vaktar alla þá þætti sem geta haft áhrif á rof og setmyndun á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að kortleggja breytingar á lónum og á vatnsfarvegum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef þörf krefur.

Strandrof og áfok við Hálslón

Við Hálslón er viss hætta á sandfoki yfir sumartímann þegar vatnsstaðan í lóninu er lág og lónið er að fyllast að nýju. Því fylgist Landsvirkjun með þróun strandrofs og hvort sandur hafi skriðið á land og myndað svokallaða áfoksgeira út frá lónsstæðinu. Frá árinu 2009 hefur verið unnið að því að auka gróður á svæðinu með áburðardreifingu austan lónsins. Markmiðið er að stuðla að vexti gróðurþekju sem gæti tekið við hugsanlegu áfoki úr lónsstæðinu.


Heildarstærð uppgræðslusvæðisins við Hálslón er nú um 680 hektarar og hefur árangur aðgerða verið góður. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna í skýrslunni, Gróðurstyrking við Hálslón og á Hraunasvæði: framkvæmdir og árangur 2013: Áætlun 2014. Á Hraunasvæði austan við Snæfell hefur verið unnið að uppgræðslu raskaðra svæða vegna framkvæmda við Keldár- og Ufsalón með sáningu grasfræja og áburðargjöf. Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppgræðsluaðgerðum og stækkun landgræðslusvæða.

  • sandgryfjur.jpg
  • bakkvarnir.jpg
  • uppgraedslusvaedi.jpg
Segment

Mest hefur verið unnið með rofvarnir á austurströnd Hálslóns þar sem mesta hættan á áfoki skapast í suðvestan átt. Með fram austurströnd lónsins liggur Hálsvegur sem myndar eins konar rofvarnargarð. Neðan vegarins hafa verið grafnar gryfjur sem er ætlað að taka við áfoki sands frá lónsstæðinu. Þá hafa verið settar upp fokgirðingar og tilraunir gerðar með sáningu melgresis til að hefta dreifingu sands. Um sumarið 2013 var í fyrsta skipti vart við áfok úr lónsstæðinu. Þá sönnuðu sandgryfjurnar ágæti sitt en tölverður sandur var í gryfjunum á ákveðnum svæðum. Árið 2013 var einnig unnið að bakkavörnum við Jökulsá í Fljótsdal til að fyrirbyggja rof í árfarveginum. 

Nánar er fjallað um sandfok við Hálslón í skýrslunum Áætlun um áfoks- og rofvarnir á austurströnd Hálslóns og Gróðurstyrking við Hálslón og á Hraunum, Fljótsdalsheiði: Framkvæmdir og árangur 2013: Áætlun 2014.

Section
Segment

Strandrof og áfok við Blöndulón

Við Blöndulón hefur staðið yfir vöktun og rannsóknir á strandrofi og áfoki frá árinu 1993. Megináhersla er lögð á vöktun landbrots úr bökkum, sandfoks úr lónsstæðinu, eftirlit með áburðargjöf á sandfokssvæði og aðgerðum til að styrkja gróður í þeim. Áætlað er að heildarflatarmál gróðurlendis sem hefur orðið fyrir áhrifum af foksandi frá árinu 1998 sé um 52 ha.

Hlýtt og þurrviðrasamt var á Norðvesturlandi árið 2012 en árið 2013 var svalt og úrkomusamt. Helstu niðurstöður vöktunar og rannsókna á landbroti og sandfoki við Blöndulón sýna:

  • Öldurof úr bökkum Blöndulóns var lítið milli áranna 2011–2012 eða að meðaltali 0,08 m. Árið 2012–2013 var öldurofið um 0,12 m. Þetta er fjórða árið í röð sem rof er lítið á þessu svæði. Meðalrofhraði árin 2004–2012 var 0,42 m. Rof verður mikið við vindálag og þegar hátt er í lóninu og er því misjafnt eftir árum.
  • Merki um nýtt sandfok á land úr fjörum lónsins sáust á nokkrum stöðum eftir sumarið 2012 og aftur 2013. Ástæður þess má líklega rekja til þess að óvenjulágt var í lóninu á þessu tímabili.
  • Áburðardreifing á sandfokssvæði við lónið hófst árið 2010 í þeim tilgangi að styrkja gróður gagnvart áfoki. Meðal aðgerða var sáning melgresis, sem viðist hafa tekist þokkalega. Skoðun á svæðunum haustið 2013 sýndi að áhrifa frá áburðinum var tekið að gæta og hafði grasvöxtur víða aukist. Sauðfé og gæsir sóttu hins vegar í þessi svæði sem dró úr árangri.
Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá skýrslur síðustu ára um rannsóknir og vöktun á strandrofi og áfoki. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.