Section
Segment

Landsvirkjun hefur staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna frá árinu 1968. Hvort tveggja hefur Landsvirkjun unnið á eigin vegum og í samstarfi við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, skógræktarfélög og heimamenn á viðkomandi svæðum. Tilgangur landgræðslunnar er að endurheimta landgæði, að draga úr raski á gróðurlendum auk þess að stöðva jarðvegsrof og gróðureyðingu. Aukinn skilningur er nú á mikilvægi þess að endurheimta jarðveg þar sem hringrás og varðveisla næringarefna í jarðvegi er undirstaða alls lífs. Með aukinni vitund um loftslagsbreytingar hefur einnig verið horft til landgræðslusvæða Landsvirkjunar með kolefnisbindingu í huga.

Kolefnisbinding

Markmið Landsvirkjunar er að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki. Unnið er að því að markmiðum um kolefnisjöfnun verði náð í sem ríkustum mæli með aðgerðum innanlands. Hingað til hefur kolefnisbinding verið metin út frá stærð landgræðslusvæða og meðaltalsstuðlum fyrir kolefnisbindingu.

Á árunum 2010–2012 var raunbinding landgræðslu- og skógræktarsvæða Landsvirkjunar mæld af Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Úttektin byggist á beinum mælingum samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og verður hér eftir gerð á um fimm ára fresti. Með mælingunum fæst mun áreiðanlegra mat á afköstum kolefnisbindingar.

Ný verkefni á tveim jörðum, Laxaborg í Dölum og Bolholti í Rangárþingi ytra, eru enn ekki farin að skila marktækri bindingu. Landsvirkjun hóf skógrækt og landgræðslu á jörðunum árið 2011 gagngert til að binda kolefni.

Section
Segment

Skógrækt

Heildarflatarmál skógræktarsvæða Landsvirkjunar er nú metið 135 hektarar en áður var það talið vera um 260 hektarar. Mismunurinn er fólginn í staðli Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem gerir kröfur um lágmarksstærð skógarsvæða ásamt kröfum um þéttleika og hæð trjáa en nokkur af uppgræðslusvæðum Landsvirkjunar uppfylltu ekki þessar kröfur. Raunbinding koltvísýrings (CO2) í skóglendum Landsvirkjunar árið 2013 er áætluð 814 tonn CO2-ígilda. Það þýðir að binding á hvern hektara er um 6 tonn CO2-ígilda. Líkt og við var búist sýndu mælingarnar að binding yngri skógræktarsvæða er töluvert minni en binding eldri svæða. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir að binding í 135 hektara skóglendi Landsvirkjunar muni í nánustu framtíð aukast verulega.

Árið 2013 voru gróðursettar um 63.000 plöntur í nágrenni aflstöðva Landsvirkjunar.

Inni í ofangreindum tölum er ekki landgræðsluskógur við Búrfell sem er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands og Landvirkjunar en Landsvirkjun á ákveðna hlutdeild í kolefnisbindingu skógarins. Raunbinding þess svæðis hefur ekki verið mæld en varfærið mat kveður á um að bindingin sé um 300 tonn/ári. Áformað er að leggja nákvæmara mat á þá bindingu á næstu árum. Með þeim fyrirvara er heildarkolefnisbinding af skógræktarsvæðum Landsvirkjunar og samstarfsverkefna sem Landsvirkjun á hlutdeild í áætluð um 1.100 tonn CO2-ígilda á árinu 2013.

Section
Segment

Landgræðsla

Við úrvinnslu vegna kolefnisbindingar í landgræðslu á uppgræðslusvæðum Landsvirkjunar kom fram ósamræmi í gagnagrunnum Landsvirkjunar og Landgræðslu ríkisins hvað varðar stærð svæðanna. Vegna þessa ósamræmis var ákveðið að notast áfram við fyrra mat á kolefnisbindingu á vegum Landsvirkjunar sem er um 22.000 tonn CO2-ígilda/ári. Þetta mat er reiknað út frá stærðum landgræðslusvæða Landsvirkjunar samkvæmt gagnagrunnum fyrirtækisins og meðaltalsstuðlum fyrir bindingu. Áætlað er að meta með nákvæmum hætti stærð og þéttleika landgræðslusvæða Landsvirkjunar á næstu tveimur árum og fá þar með betri þekkingu á raunbindingu þeirra.

Heildarbinding kolefnis á vegum Landsvirkjunar með landgræðslu og skógrækt er áætluð vera um 22.000 tonn CO2-ígilda á árinu 2013.

Section
Segment

Aðferðafræði við mat á kolefnisbindingu

Mat á kolefnisbindingu með landgræðslu er samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þá er landgræðslusvæðum skipt í fimm flokka eftir aldri uppgræðslunnar en aldur og stærð svæðanna eru þeir þættir sem mestu máli skipta.

Fyrstu fimm til tíu ár uppgræðslunnar skila lítilli raunbindingu. Af þeim sökum skila yngstu landgræðslusvæðin, sem eru m.a. við Hálslón, enn sem komið er frekar lítilli kolefnisbindingu. Hámarksbinding er talin nást eftir um 10–15 ár og er hún eftir það talin haldast í um 30 ár. Eftir um 50 ár er talið að draga muni verulega úr árlegum afköstum bindingarinnar. Í samræmi við þetta skila elstu uppgræðslusvæði Landsvirkjunar mestum árangri. Í dag er því mesta kolefnisbindingin á uppgræðslusvæðunum við Blöndulón. Búast má við vaxandi afköstum á uppgræðslusvæðum á Þjórsár-, Tungnaársvæði og við Kráká í Mývatnssveit á næstu árum.

Á skógræktarsvæðum fylgir þróun bindingar að stærstum hluta sams konar ferli en hámarksbinding næst heldur síðar.

Árið 2013 voru gróðursettar um 162.000 plöntur á vegum verkefnisins Margar hendur vinna létt verk.

Section
Segment

Vinna við landgræðslu og skógrækt

Á árinu 2013 gróðursetti Landsvirkjun um 63.000 plöntur í nágrenni aflstöðva sinna. Landsvirkjun stóð einnig fyrir samstarfsverkefninu Margar hendur vinna létt verk líkt og fyrri ár en þar býður fyrirtækið fram vinnuframlag sumarvinnuflokka ungs fólks til ýmissa verkefna. Rúmlega 162.000 plöntur voru gróðursettar á vegum verkefnisins en það er breytilegt hvaða samstarfsverkefnum Landsvirkjun tekur þátt í hverju sinni. Kolefnisbindingin sem hlýst af samstarfsverkefnum er ekki hluti af kolefnisbókhaldi Landsvirkjunar þar sem verkefnin eru ekki unnin fyrir Landsvirkjun.

Segment

Gróðursetning plantna í nágrenni aflstöðva og á vegum samvinnuverkefnisins Margar hendur vinna létt verk

Segment

Auk gróðursetningar plantna er tilbúnum áburði dreift á áhrifasvæðum Landsvirkjunar og var umfangið svipað og fyrri ár. Þá er garðaúrgangur sem til fellur á aflstöðvunum nýttur til landgræðslu. Þá er einnig nokkru magni fræja og búfjáráburðar dreift á hverju ári á vegum fyrirtækisins.

Í tölulegu bókhaldi má sjá helstu magntölur í landgræðslu og skógrækt á árunum 2009–2013 á vegum Landsvirkjunar.

Segment

Magn tilbúins áburðar sem dreift var á árunum 2009–2013

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá útgefnar skýrslur á vegum Landsvirkjunar um landgræðslu, skógrækt og kolefnisbindingu. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru flestar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.