Section
Segment

Vöktun hreindýra

Landsvirkjun hefur staðið fyrir árlegri talningu á hreindýrum á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, norðan Brúarjökuls, frá árinu 1993 og frá árinu 2003 einnig á svæði austan Snæfells. Verkfræðistofnun Háskóla Íslands (VHÍ) hefur séð um talningarnar með myndatöku úr flugvél og eru vöktunasvæðin samanlagt yfir 400 km2 að stærð. Auk talningar VHÍ fer fram vöktun á burðarsvæðum hreindýra á Snæfellsöræfum í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands.

Tilgangur vöktunar og talninga er að fylgjast með ástandi hreindýrastofnsins, m.a. til að kanna hvort áhrif af framkvæmdum og aukinni umferð um svæðið séu í samræmi við niðurstöður sem fram koma í mati á umhverfisáhrifum. Bæði hreindýratalningar og vöktun á burðarsvæðum hafa farið fram árlega, um og eftir burðartíma á vorin.

Section
Segment

Hreindýratalningar

Talningar síðustu ára gefa til kynna fækkun dýra á talningarsvæðinu norðan Brúarjökuls en þó með umtalsverðum sveiflum. Fram til ársins 2007, áður en vatnaflutningar vegna virkjunar hófust, voru dýrin alla jafna langflest austan Jökulsár á Dal (austan núverandi Hálslóns). Á árunum 2008 til 2013 voru dýrin fleiri vestan árinnar að undanskildu árinu 2012 þegar mun fleiri dýr voru austan Hálslónsins. Mælingar á Eyjabakkasvæði austan Snæfells sýna engar afgerandi breytingar fram til ársins 2012.

Landsvirkjun stendur fyrir árlegri talningu og vöktun á burðarsvæðum hreindýra.

Talningar undanfarinna ára sýna að fjöldi og staðsetning dýra á burðartíma í maí er að miklu leyti háð snjóalögum. Því meiri sem snjóþekjan er því seinna koma dýrin inn á svæðið. Við slík skilyrði bera fleiri dýr á lægri og snjóléttari svæðum þar sem beitarskilyrði eru almennt betri.

Helstu vöktunarniðurstöður 2013:

  • Á Kárahnjúkasvæðinu var veðurfar óvenjulegt miðað við fyrri ár. Vorið einkenndist af miklum snjóalögum og bleytu í jarðvegi sem er talið hafa ráðið mestu um hegðun dýranna við burð. Síðan talningar VHÍ hófust hafa aldrei jafnfá hreindýr sést á svæðinu á burðartíma.
  • Á Eyjabakkasvæðinu hafði sambærilegt veðurfar einnig áhrif. Vorið 2013 voru talsvert færri dýr á svæðinu á burðartíma í samanburði við fyrri ár.
Segment

Talningarsvæði á Snæfellsöræfum sem afmarkast af fluglínum sem flognar hafa verið á undanförnum árum

Kort-06a-update1.jpg
Segment

Talningar á hreindýrum á Kárahnjúkasvæðinu 1993–2013

Section
Segment

Burður hreindýra

Náttúrustofa Austurlands annast árlega vöktun á burðarsvæðum hreindýra á Snæfellsöræfum, Brúardölum og syðri hluta Fljótsdalsheiðar. Fylgst er með hvort og hvernig virkjunarframkvæmdir hafa áhrif á burð hreindýra, val þeirra á burðarsvæðum, burðartíma og fjölda kálfa.

Árið 2013 kom út árleg skýrsla um vöktun burðarsvæða vorið 2012. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Á meðan á vöktun stóð fundust 394 kýr á Snæfellsöræfum, þar af 276 bornar. Um 170 þeirra voru austan Jökulsár á Dal (Hálslóns) sem eru færri dýr en fundist hafa þar áður.
  • 94 kýr báru inni á Vesturöræfum en þær hafa lítið sést þar á burðartíma síðan 2007.
  • Fjöldi dýra norðvestan Jökulsár á Dal (Hálslóns) virðist á hægri uppleið.

Þessi þróun er í samræmi við almenna þróun síðustu ár um hvernig dreifingu hreindýra er háttað frá Suðursveit og norður að Vopnafirði. Upp úr seinustu aldamótum fór að bera á því að hreindýrin fóru snemma af Vesturöræfum og síðar að færri dýr leituðu þangað til burðar og sumarbeitar. Til viðbótar við hefðbundinn breytileika milli ára er nú ljóst að hegðun dýranna er nokkuð flókin og svo virðist sem síðustu ár hafi hluti stofnsins verið í útrás til austurs (Suðurfjarða) og norðurs (Vopnafjarðarheiðar). Nánari upplýsingar má sjá á sjálfbærnivef Landsvirkjunar og Alcoa.

Segment

Burðarsvæði og dreifing hreindýra 2012

Kort-06b-update1.jpg
Segment

Fjöldi kúa, vetrunga og kálfa í burðar- og sumartalningum

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá skýrslur síðustu ára um vöktun hreindýra sem gefnar hafa verið út á vegum Landsvirkjunar. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.