Section
Segment

Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem virkjanaframkvæmdir, vatnaflutningar og tilkoma nýrra mannvirkja hafa áhrif á náttúru og lífríki. Landsvirkjun starfrækir 16 aflstöðvar á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Á vegum fyrirtækisins er stunduð umfangsmikil vöktun og gerðar ítarlegar rannsóknir á áhrifasvæðum allra aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að meta hvort og þá hvernig starfsemin hefur áhrif á umhverfi sitt og leita leiða til að draga úr þeim áhrifum.

Umfangsmest er lífríkisvöktun á, vatna- og fuglalífi ásamt vöktun á hreindýrum. Rannsóknir eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga.

Vöktun vatnalífríkis

Landsvirkjun stundar umfangsmikla vöktun á vatnalífríki í vötnum og ám á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að vakta mögulegar breytingar á vatnalífríki, þar með talin áhrif á fiskistofna. Með ítarlegri vöktun má leggja grunn að mótvægisaðgerðum til að draga úr umhverfisáhrifum.

Árið 2013 komu út sjö skýrslur um vöktun vatnalífríkis; fjórar fjalla um áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar, tvær um vatnasvið Þjórsár og Tungnaár (Þjórsársvæði) og ein um vatnasvið Sogsins (Sogssvæði). Hér verður farið yfir helstu niðurstöður þeirra. Skýrslunar eru aðgengilegar í heild sinni neðst á síðunni.

Section
Segment

Áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar

Til Héraðsflóa falla tvær stórar jökulár sem eiga uppruna sinn í Vatnajökli; Jökulsá á Dal og Lagarfljót. Með virkjun Jökulsár á Dal (einnig þekkt sem Jökla eða Jökulsá á Brú) er megninu af jökulvatninu safnað í Hálslón. Vatninu er síðan veitt um aðrennslisgöng til Jökulsár í Fljótsdal þaðan sem vatnið skilar sér til sjávar um Lagarfljót.

Í mati á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar var ljóst að vatnaflutningar myndu hafa mikil áhrif á bæði Lagarfljót og Jökulsá á Dal, auk annarra áa á vatnasviðum þeirra. Þessi áhrif eru nú að einhverju leyti komin fram. Jökulsá á Dal er orðin tærari og lífræn framleiðsla hefur aukist. Í Lagarfljóti hefur hins vegar grugg og rennsli aukist sem hefur minnkað tærleika, einn af lykilþáttum fyrir frumframleiðslu vatnalífríkisins.

Segment

Fljótsdalsstöð og helstu ár

Kort-10-update2.jpg
Segment

Lagarfljót fyrir virkjun

Jökulaur og tíðar vatnshæðabreytingar eru helsta sérkenni Lagarfljótsins. Jökulaurinn takmarkar aðgengi ljóss niður í vatnið sem leiðir af sér að frumframleiðni hefur verið bundin við efstu lög vatnsins og strandsvæði. Athuganir á plöntu- og dýrasvifi síðustu áratugi hafa leitt í ljós að magn þess er lítið og fábreytt. Fyrir virkjanaframkvæmdir var hins vegar lítið vitað um tegundir smádýra og þörunga í Lagarfljóti.

Á árinu 2013 kom út skýrsla, Kísilþörungar og smádýr í Lagarfljóti 2006–2007, um rannsóknir sem framkvæmdar voru áður en vatnaflutningar hófust á vatnasviði Fljótsdalsstöðvar. Helstu niðurstöður eru:

 • Sjóndýpi (mat á tærleika vatnsins) var á bilinu 20–60 cm sumarið 2006 og á bilinu 20–30 cm á sama tíma árið 2007.
 • Magn svifdýra var lítið í samanburði við önnur stór stöðuvötn á landinu. Þéttleiki smádýra á steinum var hins vegar yfir meðallagi.
 • Rannsóknir leiddu í ljós að breytileiki í tegundasamsetningu kísilþörunga hverju sinni ræðst að mestu af vatnsborðssveiflum í fjöruborði (24%) og gruggi eða magni svifaurs (10%). Breytileikinn ræðst minna af öðrum breytum eins og leiðni og vatnshita. 

Úrvinnsla mæligagna frá vöktun lífríkis Lagarfljóts árin 2011 og 2012 fer fram á þessu ári. Niðurstöðurnar verða notaðar til samanburðar við ástand vatnasvæðisins fyrir virkjun.

Segment

Fiskar í Lagarfljóti

Rennsli Lagarfljóts jókst verulega með virkjun Jökulsár á Dal. Nú er gert ráð fyrir að viðstöðutími vatns í Lagarfljóti hafi minnkað úr um einu ári í um hálft ár, auk þess sem rennslið hefur jafnast á milli árstíða. Sjóndýpi í Lagarfljóti hefur minnkað eins og spáð var. Sumarið 2012 var sjóndýpið sem er mat á tærleika vatnsins um 13–15 cm en fyrir vatnaflutninga árið 2006 var það 20-60 cm.

Árið 2013 kom út skýrsla Veiðimálastofnunar um rannsóknir á silungi í Lagarfljóti á árunum 2011 og 2012. Í skýrslunni er einnig fjallað um seiðarannsóknir í hliðarám Lagarfljóts og Jöklu, Fögruhlíðará og Gilsá, árið 2012. Helstu niðurstöður eru:

 • Fækkun bleikju frá árinu 1998 er nær samfelld og hófst áður en Fljótsdalsstöð tók til starfa. Urriðastofninn virðist á sama tíma vera jafnari og mælingar sýna ekki fram á fækkun.
 • Stærð fiska í Lagarfljóti hefur dregist saman og almennt virðast fiskarnir í verri holdum. Raunveruleg áhrif virkjanaframkvæmda eiga þó eftir að koma fram á næstu árum. Er það vegna þess að uppistaðan í veiðinni fram til þessa eru fiskar sem klöktust út áður en vatnaflutningar vegna virkjunar hófust. Rannsóknarefni næstu ára er ástand fiskistofna sem hafa alið allan sinn aldur í breyttu Lagarfljóti.
 • Fæða bleikju og urriða hefur tekið breytingum. Fæðutegundir af landrænum toga hafa að einhverju leyti tekið við fæðudýrum úr vatni sem kann að vera afleiðing minni framleiðni í Lagarfljóti.

Meðal þess sem hefur áhrif á göngur fiska eru mannvirki á borð við stíflur og útföll vatnsaflsvirkjana. Þá getur minna fæðuframboð og breytt fæðumunstur einnig haft áhrif á getu fiskanna til að þola aukið álag sem fylgir breyttu umhverfi.

Árið 2013 kom út skýrsla um gönguhegðun laxa og sjóbirtings (sjógenginn urriði) upp Lagarfljót sem var rannsökuð árin 2010 og 2011. Helstu niðurstöður eru:

 • Í samræmi við fyrri athuganir virðist sjóbirtingurinn ganga í þverár Lagarfljóts til hrygningar. Laxar virðast hins vegar ekki ganga upp fyrir flúðir Lagarfoss. Því er ljóst að þverár Lagarfljóts hafa mikla þýðingu fyrir sjóbirtinga í fljótinu.
 • Almennt hefur dregið úr laxveiði neðan við Lagarfoss á síðustu árum. Ýmsar mótvægisaðgerðir til að auka fiskgengd hafa verið skoðaðar.
Segment

Grugg frá aðrennslisgöngum

Rannsóknir á lífríki í Glúmsstaðadalsá og Hrafnkelsá hafa staðið yfir síðan 2010. Tilgangurinn er að kanna áhrif af gruggi frá leka í aðrennslisgöngum sem liggja frá Hálslóni. Lekans verður ekki vart fyrr en vatnsborð í Hálslóni nálgast 610–615 metra hæð yfir sjávarmáli (verður hæst 625 m.y.s.) og minnkar hratt er það fer aftur niður fyrir 620 metra. Árið 2013 kom út vöktunarskýrsla mælinga frá 2012. Helstu niðurstöður eru:

 • Grugg í Glúmsstaðadalsá og Hrafnkelsá var meira árin 2012 og 2010 en árið 2011. Er það rakið til hærri vatnsstöðu í Hálslóni.
 • Gruggið verður meira eftir því sem líður á sumarið. Grugg mælist mest eftir að Hálslón fer á árlegt yfirfall í lok sumars en minnkar svo aftur þegar líður á haustið.
 • Erfitt er að segja til um hversu mikil áhrif grugg hefur á botndýrasamfélög í Glúmsstaðadalsá og Hrafnkelsá. Tegundasamsetning botndýra var áþekk milli sýnatökustaða en bitmý var í mestum þéttleika þar sem gruggið var minnst.
Segment

Vöktun botndýra og gruggmælingar

Kort-07-update1.jpg
Section
Segment

Vatnasvið Þjórsár og Tungnaár

Landsvirkjun hefur um árabil vaktað lífríki Þjórsár og gerðar hafa verið ítarlegar rannsóknir á fiskistofnum í ánni allt frá 1973. Frá því að virkjanir voru reistar í efri hluta Þjórsár hafa orðið miklar breytingar á rennsli í neðri hluta árinnar. Dregið hefur úr aurburði og betri skilyrði skapast fyrir laxastofninn sem hafa stuðlað að vexti hans og aukið veiði í ánni. Árið 1991 reisti Landsvirkjun fiskstiga við fossinn Búða. Göngur upp stigann hafa aukist ár frá ári og nú hrygnir lax ofan stigans.

Segment

Vatnasvið Þjórsár og Tungnaár

Section
Segment

Fiskigöngur í Þjórsá og Tungnaá

Árið 2013 kom út skýrsla Veiðimálastofnunar um fiskirannsóknir á vatnasviði Þjórsár. Markmið rannsóknanna var að auka þekkingu á göngum laxfiska og meta ástand fiskstofna á vatnasviðinu í tengslum við fyrirhugaðar virkjanir í neðanverðri Þjórsá. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

 • Metið var að vorið 2012 hafi rúmlega 3.000 laxaseiði gengið niður Kálfá og voru um 20% þeirra örmerkt í þeim tilgangi að meta stofnstærð við endurkomur þeirra á árunum 2013 og 2014.
 • Þéttleiki laxaseiða á fyrsta og öðru ári ofan við fiskistigann við fossinn Búða var sá mesti sem þar hefur mælst. Er það til vitnis um aukið landnám laxa og nýliðun ofan stigans.
 • Þéttleiki laxaseiða á fyrsta og öðru ári á árlegum mælistöðum í Þjórsá lækkaði milli ára á meðan þéttleiki tveggja ára seiða var sá hæsti síðan 2008.
 • Búsvæðamat var framkvæmt fyrir laxaseiði á ófiskgengu svæði í Bjarnalæk. Matið gaf til kynna að þar sé víða að finna álitleg búsvæði fyrir laxaseiði sem gætu, háð vatnshita og rennsli, nýst til uppeldis.

Nýjasta aflstöð Landsvirkjunar, Búðarhálsvirkjun, var gangsett í mars 2014. Stöðin virkjar vatn úr Tungnaá og Köldukvísl en í báðum ám eru stofnar bleikju og urriða þar sem bleikjan er í miklum meirihluta. Helstu veiðisvæðin í grennd við virkjunina eru í vatnaskilum Tungnaár og Köldukvíslar og í Köldukvísl neðan við fossinn Nefja.

Árið 2013 kom út skýrsla um rannsóknir á göngu bleikju og urriða á áhrifasvæði Búðarhálsvirkjunar. Rannsóknirnar voru gerðar árin 2009–2012, það er fyrir gangsetningu Búðarhálsstöðvar. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

 • Myndun Sporðöldulóns kemur í veg fyrir frjálsar göngur silunga milli Köldukvíslar og Tungnaár sem kemur til með að hafa áhrif á stangveiði í vatnakerfinu.
 • Talið er að stofninn eigi eftir að skiptast í tvo aðskilda hópa, annars vegar í Tungnaá og hins vegar í Köldukvísl.
 • Með tilkomu Sporðöldulóns munu hrygningarsvæði í lónsstæðinu leggjast af og Köldukvíslarstofninn mun þurfa að færa sig ofar í ána til að halda velli. Tungnaárstofninn mun einnig þurfa að laga sig að breyttum hrygningarskilyrðum.
Section
Segment

Vatnalífríki Sogsins

Sogið fellur úr Þingvallavatni, stærsta náttúrulega stöðuvatni Íslands. Þrjár vatnsaflsstöðvar eru í Soginu; Steingrímsstöð, Ljósafossstöð og Írafossstöð. Fyrir byggingu Steingrímsstöðvar var náttúrulegt afrennsli Þingvallavatns um Efra-Sog. Vatninu er nú veitt um göng til stöðvarinnar sem hefur frárennsli til Úlfljótsvatns. Efra-Sog var áður annálað fyrir urriðastofn sem var einkum kunnur fyrir stærð sína. Á þessu svæði var mjög mikið af bitmýi sem er mikilvæg fæða laxfiska.

Segment

Vatnasvið Sogsins

Kort-09-update1.jpg
Section
Segment

Vatnalíf á Sogssvæðinu

Veiðimálastofnun hefur stýrt fiskirannsóknum, með áherslu á vöktun seiðabúskaps laxfiska í Soginu, frá árinu 1985. Smádýralíf, með sérstakri áherslu á bitmý, hefur einnig verið vaktað í Sogi og Efra-Sogi frá árinu 1997. Árið 2013 kom út skýrsla um rannsóknir á fiski og smádýrum í Soginu, þverám þess og Efra-Sogi árið 2012. Helstu niðurstöður eru:

 • Góð laxveiði var í Sogi árið 2011 eða 66% yfir meðalveiði síðustu 10 ára. Umskipti voru hins vegar árið 2012 þegar veiðin var 55% undir meðalveiði síðastliðinna 10 ára. Er það í takt við almennt slaka veiði og laxgengd í ám landsins það árið.
 • Mikill samdráttur hefur verið í bleikjuveiði í Sogi frá árinu 2000. Árin 2012–2013 var bleikjuveiðin um 16% af veiðinni þegar hún var mest árið 1996. Minnkandi veiði endurspeglar líklega minnkandi stofnstærð í Sogi og er í takt við almennan samdrátt í veiði bleikju í íslenskum ám. Sá samdráttur hefur staðið yfir frá því um árið 2000, án þess að ástæður hans séu þekktar.
 • Seiðabúskapur laxaseiða á fyrsta ári í Sogi var góður árið 2012. Þá tókst nýliðun betur í efri hluta Sogsins en þar hefur um árabil verið viðvarandi slakur þéttleiki seiða. Á samanburðarstöðum neðar í vatnakerfinu, í Ölfusá og Hvítá, fundust einkum laxaseiði. Undanfarin ár hafa urriðaseiði fundist í útfalli Þingvallavatns og í Efra-Sogi sem bendir til að þar hrygni urriði í einhverjum mæli.
 • Fjöldi bitmýsflugna í gildrur við Sogið var nálægt meðaltali áranna 2007–2011.
Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá skýrslur síðustu ára um vöktun vatnalífríkis sem gefnar hafa verið út á vegum Landsvirkjunar. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.

Segment
TitillNúmer
Fiskirannsóknir í Sultartangalóni árið 2010 LV-2011-025
Fiskirannsóknir á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulsár á Dal, Fögruhlíðarár og Gilsár 2010 LV-2011-044
Fiskirannsóknir í Sogi og þverám þess árið 2010 LV-2011-045
Áhrif gruggs á vatnalífríki Glúmsstaðadalsár: Niðurstöður vöktunar 2010 LV-2011-066
Fiskrannsóknir á vatnasvæði Þjórsár árið 2010 LV-2011-085
Lífríki Sogs: Samantekt og greining á gögnum frá árunum 1985–2008 LV-2011-089
Varnarefnið DDT gegn mývargi við Steingrímsstöð: Mat á mengun svæðisins LV-2011-091
Fiskrannsóknir í Hrauneyjalóni 2011 LV-2011-114
Áhrif fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár á fiskistofna í Þjórsá LV-2012-014
Fiskrannsóknir á vatnasvæði Þjórsár árið 2011 LV-2012-047
Fiskrannsóknir í Sogi og þverám þess árið 2011 LV-2012-061
Áhrif gruggs á vatnalífríki Glúmsstaðadalsár og Hrafnkelsár: Niðurstöður vöktunar 2011 LV-2012-064
Fisk- og smádýrarannsóknir í Hólmsá 2011 LV-2012-105
Göngur merktra laxfiska í Lagarfljóti árin 2010–2012: Lokaskýrsla LV-2013-014
Rannsóknir á göngu bleikju og urriða í Köldukvísl, Tungnaá og Sultartangalóni 2009–2012 LV-2013-034
Fiskirannsóknir á vatnasvæði Þjórsár árið 2012 LV-2013-063
Áhrif gruggs á vatnalífríki Glúmsstaðadalsár og Hrafnkelsár: Niðurstöður vöktunar 2012 LV-2013-067
Kísilþörungar og smádýr í Lagarfljóti 2006–2007 LV-2013-068
Fiskirannsóknir á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulsár á Dal, Fögruhlíðarár og Gilsár 2011 og 2012 LV-2013-084
Fiskrannsóknir í Sogi og þverám þess árið 2012 LV-2013-092