Landsvirkjun vaktar fuglalíf á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Vöktunin fer fram með athugunum og talningum á ákveðnum fuglategundum, fuglapörum, ungum, eggjum og hreiðrum. Markmiðið er að kanna hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hefur áhrif á fjölda fugla og dreifingu þeirra.
Andatalningar á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar
Vatnaflutningar til Lagarfljóts hófust með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar árið 2007. Þá var byrjað að veita vatni úr Jökulsá á Dal í Lagarfljót og vöktun á lífríki í fljótinu hófst. Vöktun fugla á Lagarfljóti var upphaflega beint að hávellu. Var það gert bæði í samræmi við mat á umhverfisáhrifum og í samráði við sérfræðinga hjá Náttúrustofu Austurlands (NA). NA hefur frá árinu 1989 safnað gögnum um andfugla á svæðinu sem hafa reynst gagnleg til að skýra breytileika í fjölda hávellu. Árið 2012 hóf Landsvirkjun frekari vöktun á fuglalífi við Lagarfljót og nær vöktunin nú til fleiri andategunda. Markmiðið er að fá skýrari sýn á þróun fuglalífs á svæðinu.
Áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar

Fjallað er um rannsóknir sem gerðar voru 2012 og 2013 í skýrslunum Hávellur á Lagarfljóti og á vötnum á Fljótsdalsheiði 2012 og Andatalningar á Lagarfljóti og Fljótsdalsheiði 2013. Helstu niðurstöður eru:
- Hávellum fór fækkandi frá árinu 2005 til ársins 2012 en 2013 hafði hávellum aftur fjölgað.
- Talningar á Lagarfljóti undanfarin ár benda til þess að svipuð þróun eigi við um skúf- og stokkendur. Breytileiki á milli ára og á milli tegunda er hins vegar mikill. Breytileiki á fjölda hávella á Lagarfljóti getur tengst auknu gruggi en einnig breyttum skilyrðum fyrir fæðuöflun við sjó og í heiðavötnum og því var bætt við athugunarstöðum á Fljótsdalsheiði árið 2011.
Sveiflur í fjölda fugla hafa áður átt sér stað í Lagarfljóti. Fækkunin milli áranna 2005 og 2012 virðist hins vegar vera óvenjulangvinn. Aukið grugg í Lagarfljóti er talið rýra fæðuskilyrði í fljótinu og þess vegna er rík ástæða til að fylgjast áfram með fuglastofnum við fljótið.
Hávellur á Lagarfljóti
Þróun í fjölda hávellu á Lagarfljóti árin 2005–2013. Talið er í fjögur til sex skipti yfir sumarið.
Hávellur, skúfendur og stokkendur á Lagarfljóti
Breytingar á stærstu hópum hávellu og skúfanda að vori og stokkanda að vetri á Lagarfljóti.
Vöktun skúms á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar
Landsvirkjun hefur síðustu ár rannsakað hvort og þá hvernig vatnaflutningar frá Jökulsá á Dal í Lagarfljót gætu haft áhrif á varpþéttileika skúms á svæðinu. Aðalvarpsvæði fuglanna á Austurlandi er á Úthéraði. Fjallað er um rannsóknir á skúmi í skýrslunni Vöktun skúms á Úthéraði 2005–2013. Helstu niðurstöður eru:
- Alls sáust 520 skúmar á svæðinu árið 2013 sem er svipaður fjöldi og árið 2000. Á tímabilinu hefur fjöldinn þó sveiflast nokkuð, var minnstur 2011 eða 236 skúmar.
- Eyrar og bakkar við farveg Jökulsár á Dal virðist vera mikilvægasta varpsvæði skúma. Þar verptu um 86% fuglanna, fleiri en í niðursveiflunni sem varð árið 2011.
- Á öðrum varpsvæðum varð fækkun en heildarþéttleiki skúma á svæðinu var meiri árið 2013 en 2011. Það bendir til að tilfærsla hafi orðið innan svæðisins.
- Framkvæmdir á svæðinu virðast ekki hafa haft neikvæð áhrif á heildarþéttleika skúma.
Heildarfjöldi skúma á Úthéraði
Heildarfjöldi skúma á Úthéraði 2000–2013. Ekki var talið árin 2001–2004 né 2010–2012.
Fjöldi skúma í farvegi Jökulsár á Dal
Fjöldi skúma í farvegi Jökulsár á Dal 2000–2013. Ekki var talið árin 2001–2004, 2010 og 2012.
Vöktun heiðagæsa
Landsvirkjun stundar vöktun á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar til að meta hvort og þá hvernig starfsemi stöðvarinnar hefur áhrif á stofn heiðagæsa. Ásamt því að telja gæsir er stuðst við talningu á eggjum og hreiðrum. Undanfarinn áratug hefur heiðagæsum fjölgað ört og hefur sú þróun ekki síst sett mark sitt á Fljótsdalshérað og heiðarlöndin þar inn af.
Fjallað er um vöktun heiðagæsa 2012 og 2013 í skýrslunum Heiðagæsaathuganir á Snæfellsöræfum 2012 og Heiðagæsaathuganir á Snæfellsöræfum árið 2013. Helstu niðurstöður eru:
- Fjölgun heiðagæsa á svæðinu, líkt og á landinu öllu, heldur áfram.
- Varp heiðagæsa á Vesturöræfum árið 2013 tókst vel. Hreiðurþéttleiki hefur verið lágur í Hálsinum austan við Hálslón en jókst þó mjög á árinu 2013. Lágur þéttleiki hreiðra gæti tengst nálægð við Hálslónsveg. Vegurinn fælir gæsir af hreiðrum og eggin verða eftir óvarin.
- Varpið á Vesturöræfum tók dýfu árið 2011 sem rekja má að mestu til veðurfars. Þéttleiki hreiðra hefur að öðru leyti aukist jafnt og þétt og fjölgaði árið 2012 miðað við fyrri mælingar.
- Talning á heiðagæsum úr lofti á svæðunum undir Fellum, á Vesturöræfum og á Brúaröræfum á árunum 2011 til 2013 sýndu nokkuð breytilegt hlutfall í fjölda unga. Ástæða breytileikans er talin tengjast því hvenær talningin fór fram. Langflest heiðagæsapör reyndust vera með einn til þrjá unga sem er í samræmi við sambærilegar eldri athuganir af áhrifasvæðinu.
Talningarsvæði á Austurlandi líkt og þau eru skilgreind af Náttúrustofu Austurlands

Fjöldi heiðagæsahreiðra á Vesturöræfum, Hafrahvömmum og í Hrafnkelsdal
Hafrahvammar, Hrafnkelsdalur og afdalir hans voru rannsakaðir 1981–2010 en gögn fyrir Vesturöræfi eru frá 1981–2013.
Flogið með heiðagæsum
Sumarið 2013 voru tvær gæsir fangaðar við Hálslón og smágerð staðsetningartæki hengd við þær. Staðsetningartækin eru knúin sólarrafhlöðu og senda rannsakendum boð um staðsetningu gæsanna.
Gæsirnar, sem nefndar voru Hörður og Úlfar, yfirgáfu varpstöðvarnar við Hálslón þegar norðanhret gerði um haustið og héldu í langflug suður til Bretlands. Síðan þá hefur verið fylgst með ferðum gæsanna og í apríl 2014 sneru þær aftur til Íslands eftir vetrardvöl í Skotlandi og á Englandi.
Tilgangur verkefnisins er að kanna för heiðagæsa. Verkefnið er styrkt af Landsvirkjun, Umhverfisstofnun Skotlands (e. Scottish National Heritage), resku fuglaverndunarsamtökunum (The Wildfowl and Wetlands Trust, WWT), Náttúrustofu Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarði og Toyota á Íslandi. Nánari upplýsingar um ferðir Harðar og Úlfars má finna á telemetry.wikispaces.com/pinkfeet.
Útgefið efni
Að neðan má sjá skýrslur síðustu ára um rannsóknir á fuglalífi sem gefnar hafa verið út á vegum Landsvirkjunar. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.