Náttúra og ásýnd

Section
Segment

Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem virkjanaframkvæmdir, vatnaflutningar og tilkoma nýrra mannvirkja geta haft áhrif á náttúru og lífríki. Landsvirkjun stundar umfangsmikla vöktun og ítarlegar rannsóknir á áhrifasvæðum allra aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að greina og þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og draga úr neikvæðum áhrifum hennar. Þannig getur Landsvirkjun unnið betur í þágu umhverfis og samfélags.

Áhrif virkjana á vatnalífríki

Landsvirkjun stundar umfangsmikla vöktun á vötnum og ám sem falla innan áhrifasvæða aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að vakta mögulegar breytingar á vatnalífríki og fylgjast með áhrifum starfseminniar á það. Með ítarlegri vöktun má vinna að mótvægisaðgerðum til að draga úr umhverfisáhrifum.

Í mati á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar var ljóst að vatnaflutningar myndu hafa mikil áhrif á bæði Lagarfljót og Jökulsá á Dal, auk annarra áa á vatnasviðum þeirra. Þessi áhrif eru nú að einhverju leyti komin fram. Jökulsá á Dal er orðin tærari og lífræn framleiðsla hefur aukist. Í Lagarfljóti hefur hins vegar grugg og rennsli aukist sem hefur minnkað tærleika, einn af lykilþáttum fyrir frumframleiðslu vatnalífríkisins.

Raunveruleg áhrif virkjanaframkvæmda eiga þó eftir að koma fram á næstu árum. Rannsóknir beinast enn að fiskum sem klöktust út áður en vatnaflutningar vegna Kárahnjúkavirkjunar hófust. Rannsóknarefni næstu ára er ástand fiskistofna sem hafa alið allan sinn aldur í breyttu Lagarfljóti.

Stíflur og útföll vatnsaflsvirkjana geta haft áhrif á göngur fiska. Þá getur breytt fæðumunstur og breytt umhverfi aukið álag á fiskistofna.

Landsvirkjun hefur vaktað lífríki Þjórsár frá 1973. Eftir að virkjanir voru reistar í efri hluta Þjórsár hafa orðið miklar breytingar á rennsli í neðri hluta árinnar. Dregið hefur úr aurburði og skilyrði skapast sem hafa stuðlað að vexti laxstofnsins og aukinni veiði í ánni. Árið 1991 reisti Landsvirkjun fiskistiga við fossinn Búða. Göngur upp stigann hafa aukist ár frá ári og nú hrygnir lax ofan stigans.

Segment

Vatnasvið Þjórsár og Tungnaár

Section
Segment

Fuglalíf á áhrifasvæðum virkjana

Starfsemi Landsvirkjunar getur haft ýmis áhrif á fuglalíf. Myndun uppistöðulóna og breytingar á árfarvegum geta haft áhrif á búsvæði og vegir, flutningslínur, vindmyllur og önnur mannvirki geta valdið þeim ýmsum truflunum.

Landsvirkjun vaktar fuglalíf á völdum áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Vöktunin fer fram með athugunum og talningum á ákveðnum fuglategundum, fuglapörum, ungum, eggjum og hreiðrum. Markmiðið er að kanna áhrif starfsemi á fjölda og dreifingu fugla.

Segment
Hávellur á Lagarfljóti

Þróun í fjölda hávella á Lagarfljóti árin 2005–2013. Talið er í fjögur til sex skipti yfir sumarið.

Segment

Vöktunarniðurstöður sýna að hávellum á Lagarfljóti fór fækkandi á árunum 2005 til 2012. Árið 2013 mældust hávellur aftur í svipuðum fjölda og þær voru fyrir um áratug. Svipuð þróun á sér stað hjá skúf- og stokköndum. Talið er að aukið grugg í Lagarfljóti rýri fæðuskilyrði í fljótinu og því telur Landsvirkjun ríka ástæðu til að fylgjast áfram með fuglastofnum og lífríki í og við Lagarfljót.

Aukið grugg í Lagarfljóti er talið rýra fæðuskilyrði þeirra fugla sem þar eiga viðdvöl.

Heiðagæsum hefur aftur á móti fjölgað ört undanfarinn áratug, eins og um allt land, og sett mark sitt á Fljótsdalshérað og heiðarlöndin þar í kring. Jafnframt virðast framkvæmdir á svæðinu ekki hafa haft neikvæð áhrif á heildarþéttleika skúma sem eiga aðalvarpsvæði sitt á Úthéraði á Austurlandi.

Hávellum fór fækkandi á Lagarfljóti á árunum 2005–2012. Árið 2013 hafði þeim fjölgað aftur. Sveiflur í fjölda fugla hafa áður átt sér stað í Lagarfljóti en áðurnefnd fækkun virðist hins vegar vera óvenjulangvinn.

Section
Segment

Hreindýratalningar á Snæfellsöræfum

Landsvirkjun hefur staðið fyrir árlegri talningu á hreindýrum á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar á Austurlandi frá árinu 1993. Tilgangur vöktunarinnar er að fylgjast með ástandi hreindýrastofnsins og leggja mat á hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hefur áhrif þar á.

Fylgst er með fjölda og dreifingu hreindýra á Snæfellsöræfum. Vöktunarsvæðið er yfir 400 ferkílómetrar að stærð og stuðst er við beina talningu og loftmyndir sem teknar eru af svæðinu.

Section

Talningar úr lofti veita góða yfirsýn yfir dreifingu hreindýra á svæðinu. Talningarnar eru unnar af Verkfræðistofnun Háskóla Íslands (VHÍ) og fara fram árlega á yfir 400 km2 svæði.

Segment

Talningar síðustu ára gefa til kynna fækkun dýra á talningarsvæðinu norðan Brúarjökuls en þó með umtalsverðum sveiflum. Á Eyjabakkasvæðinu austan Snæfells hafa engar afgerandi breytingar orðið.

Síðustu ár hefur hluti hreindýrastofnsins verið í útrás austur til Suðurfjarða og norður á Vopnafjarðarheiðar.

Þá sýnir vöktun Náttúrustofu Austurlands að fjöldi og staðsetning dýra á burðartíma er að miklu leyti háð snjóalögum. Fleiri dýr bera á snjóléttari svæðum þar sem beitarskilyrði eru betri.

Í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar árið 2001 var talið að breytingar yrðu á dreifingu og fjölda hreindýra. Vöktun síðasta áratugs hefur sýnt að hegðun dýranna er nokkuð flókin og áframhaldandi vöktun þarf til að veita betri sýn á möguleg langtímaáhrif virkjunarinnar á hreindýrastofninn.

Section
Segment

Endurheimt landgæða

Betri nýting auðlinda og minni losun gróðurhúsalofttegunda eru meðal markmiða Landsvirkjunar í umhverfismálum. Helstu auðlindir við orkuvinnslu Landsvirkjunar eru jarðhiti og fallvötn en aðrar auðlindir eru meðal annars landnotkun sem tengist landgræðslu og skógrækt.

Heildarflatarmál skógræktarsvæða Landsvirkjunar er nú metið 135 ha.

Landsvirkjun hefur unnið að umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna frá árinu 1968, í samstarfi við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, skógræktarfélög og heimamenn. Tilgangur landgræðslunnar er endurheimt landgæða, að draga úr raski á gróðurlendum auk þess að stöðva jarðvegsrof og gróðureyðingu.

Með aukinni vitund um loftslagsbreytingar hefur einnig verið horft til landgræðslusvæða Landsvirkjunar með kolefnisbindingu í huga. Á árinu 2013 gróðursetti Landsvirkjun um 63.000 plöntur í nágrenni aflstöðva sinna, auk sáningar og uppgræðslu á áhrifasvæðum fyrirtækisins. Landsvirkjun stóð einnig fyrir samstarfsverkefninu Margar hendur vinna létt verk líkt og fyrri ár en rúmlega 162.000 plöntur voru gróðursettar á þess vegum.

Section

Við Heklu hafa um 2,3 milljónir birkitrjáa og um 50 þúsund reyniviðir verið gróðursett í um 1200 hektara lands. Verkefnið snýst um endurheimt á einu af lykilvistkerfum Íslands, birkiskógunum. Um er að ræða samstarfsverkefni heimamanna á Hekluskógasvæðinu, Landgræðslu- og Skógræktar ríkisins, skógræktarfélaga o.fl. Landsvirkjun hefur stutt verkefnið með tækjum, mannskap og beinum fjárframlögum.

Section
Segment

Unnið gegn rofi og áfoki

Landsvirkjun vaktar þá þætti sem geta haft áhrif á rof og setmyndun á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að kortleggja breytingar á lónum og á vatnsfarvegum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef þörf krefur. Landgræðsla fer fram á flestum starfssvæðum Landsvirkjunar bæði til að stuðla að vexti gróðurþekju og til að sporna við sandfoki úr lónsstæðum fyrirtækisins.

Heildarstærð uppgræðslusvæðisins við Hálslón er nú um 680 hektarar og hefur árangur aðgerða verið góður.

Við Hálslón er viss hætta á sandfoki yfir sumartímann þegar vatnsstaðan í lóninu er lág. Frá árinu 2009 hefur verið unnið að því að styrkja gróður á svæðinu með áburðardreifingu austan Hálslóns. Í sumar varð í fyrsta skipti vart við sandfok úr Hálslóni. Þá sönnuðu sandgryfjur við austurbakka lónsins ágæti sitt. Gryfjurnar tóku við þó nokkru magni sands sem annars hefði fokið inn á hálendið.

Við Blöndulón hefur verið unnið markvisst að rofvörnum og gróðursetningu. Með landgræðslu má stuðla að vexti gróðurþekju og draga úr hættu á áfoki og rofi.

Section
Segment

Ásýnd lands og náttúru

Öllum framkvæmdum Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask sem getur haft áhrif á lífríki, náttúru og ásýnd landsins í kring. Slíkt jarðrask verður meðal annars vegna gerðar uppistöðulóna, stíflna og veituleiða, lagningar vega og jarðstrengja, aðstöðusköpunar og jarðborana.

Með nýrri stöðu landslagsarkitekts hjá Landsvirkjun leggur fyrirtækið ríkari áherslu á að horfa til sjónrænna áhrifa mannvirkja fyrr í hönnunarferlinu en verið hefur.

Við stærri framkvæmdir geta sjónrænu áhrifin orðið umtalsverð og því leggur Landsvirkjun áherslu á að hönnun nýframkvæmda skapi heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrlegs landslags.

Krókslónsfossar eru manngerðir fossar neðan við Krókslón. Fossarnir eru um 20 metra háir og myndast þegar lónið er á yfirfalli.