Section
Segment

Norðan við Búrfell er hraunslétta sem kölluð er Hafið. Þar hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Vindmyllurnar voru gangsettar í lok janúar 2013 og er hvor um sig um 900 kW. Samanlögð raforkuvinnsla þeirra er um 6 GWst á ári sem nægir til að sjá um 1.400 heimilum fyrir rafmagni. Rekstur vindmyllanna hefur gengið vel og benda allar niðurstöður til þess að aðstæður á Hafinu séu óvenjuhagstæðar fyrir raforkuvinnslu með vindorku.

Möguleikar vindorku

Vindorka er hverful og framleiðslan fer eðli málsins samkvæmt eftir veðri. Vinnsla raforku úr vindi og vatnsafli fer einkar vel saman. Á Íslandi er vindasamast á veturna en á sumrin er rennsli til vatnsaflsstöðva mest. Í nánni framtíð er líklegt að fleiri vindmyllur geti unnið samhliða vatnsaflsstöðvunum við orkuvinnslu allt árið um kring.

Helstu umhverfisáhrif vegna vindmylla eru:
Breytingar á ásýnd svæðisins, hljóðvist og áhrif á lífríki.

Section
Segment

Ásýnd, hljóðvist og áhrif á lífríki

Hafið hentar vel fyrir rannsóknir á vindorku þar sem svæðið er fjarri byggð en skammt frá nauðsynlegum innviðum, eins og háspennulínum og vegum. Þar eru meðal annars rannsökuð helstu umhverfisáhrif vegna vindmylla; breytingar á ásýnd svæðisins, hljóðvist og áhrif á lífríki.

Líkt og öll stór mannvirki hafa vindmyllur óhjákvæmileg áhrif á ásýnd umhverfisins. Áhrifin eru að verulegu leyti afturkræf en sjálfar vindmyllurnar og undirstöður þeirra má auðveldlega fjarlægja með litlu raski ef leggja á orkuvinnsluna niður.

Þegar vindmyllurnar vinna á fullu afli er hljóðstigið næst þeim um 103dB (A) en um 45dB (A) í 340 metra fjarlægð. Hljóðstyrkur frá vindmyllunum fellur því tiltöluleg hratt með fjarlægð og blandast öðrum náttúruhljóðum á borð við árnið og vindgnauð. Samkvæmt líkanreikningum, byggðum á viðurkenndum aðferðum þar sem miðað er við 8 m/s vindhraða, fellur hljóðstig vindmyllanna á Hafinu hratt með aukinni fjarlægð líkt og sjá má að hljóðstigskortinu. Til samanburðar má nefna að 50 dB (A) eru viðmið fyrir jafngildishljóðstig hávaðamarka á íbúðarsvæðum.

Segment

Reiknuð líkangildi fyrir hljóðstig frá vindmyllum á Hafinu

Kort-01-updated2.jpg
Segment

Rannsóknir á áhrifum vindmyllanna á lífríki hafa að mestu snúið að fuglalífi. Fyrstu athuganir á fuglalífi og flugumferð fugla vegna áætlana um vindlundi við Bjarnalón og á Hafinu voru unnar á árinu 2013 og gerð skil í skýrslunni Fuglar og vindmyllur við Búrfell (LV-2014-031). Helstu niðurstöður eru:

  • Alls sáust fimm fuglategundir við athuganir á þéttleika. Af þeim eru þrjár þeirra líklegir varpfuglar á svæðinu.
  • Við flugathuganir sáust 17 tegundir og af þeim var heiðagæs algengust. Aðrar algengar tegundir voru heiðlóa, spói, sandlóa, sílamáfur og hrafn.
  • Árekstraáhætta var reiknuð út fyrir heiðagæs og heiðlóu og telst hún vera lítil.
  • Talið er að áhrif á fuglalíf við Bjarnalón, á Hafinu og svæðinu þar í kring muni aðallega birtast í raski á búsvæðum vegna tímabundinna framkvæmda.
Section
Segment

Frekari rannsóknir áætlaðar

Landsvirkjun hefur ákveðið að meta vindorkugetu á Hafinu af meiri nákvæmni og með ítarlegri vindmælingum og hermunum. Einnig verður lagt mat á tillögur varðandi stærð og staðsetningu mögulegra vindlunda sem hafa ekki verið kannaðir áður á Íslandi. Meðal þess sem verður rannsakað eru áhrif á umhverfi og samfélag, hagkvæmni uppbyggingar og reksturs og tækifæri sem felast í samspili vind- og vatnsorku. Rannsóknirnar munu ekki síst snúast um rekstur vindmylla við séríslenskar aðstæður, ísingu, skafrenning, ösku- og sandfok ásamt því að huga að ásýnd, hljóðvist, náttúrufari og dýralífi.

Varðandi frekari rannsóknir á fuglalífi er horft til reynslu erlendis frá. Reynsla að utan sýnir að neikvæðum áhrif vindlunda á fugla megi skipta í fjóra flokka; áflug, tilfærslu vegna truflunar, hindrunaráhrif og búsvæðamissir. Náttúrustofa Norðausturlands hefur þegar hafið vinnu að frekari rannsóknum hér á landi í samvinnu við Háskólann í Árósum. Megináherslan er á kortlagningu farfugla um svæðið kringum Hafið, frá vori og fram á haust, auki grunnkortlagning á varpfuglum.

Section
Segment

Góður árangur á fyrsta rekstrarári

Afkastageta vindmyllanna á Hafinu er yfir heimsmeðaltali og bendir flest til þess að íslenskar aðstæður séu óvenjuhagstæðar fyrir vinnslu rafmagns úr vindorku. Vindur á Hafinu hefur ekki farið langt frá mynstri undangenginna ára og verið nokkuð nærri meðallagi síðan vindmyllurnar voru reistar.

Nýtnihlutfall vindmyllanna á uppitíma hefur verið gott. Uppitími er sá tími sem vindmyllurnar eru í rekstri en sá tími sem vindmyllurnar eru stöðvaðar vegna viðhalds er undanskildur. Reiknað er með 98% uppitíma og hefur önnur vindmyllan staðið undir því. Hins vegar urðu vandræði með veðurstöðina á hinni vindmyllunni í apríl og maí og var því uppitími hennar um 86%. Atvikið sýnir mikilvægi þess að reka tvær rannsóknarvindmyllur.

Segment

Mánaðarlegt nýtnihlutfall á uppitíma vindmylla og meðalhraði á Hafinu árið 2013

Eftir tæplega eitt ár í rekstri hefur meðalnýting vindmylla verið um 40%. Til samanburðar er meðalnýting á heimsvísu 28%.

Segment

Á Íslandi er mikill vindstyrkur í frekar lítilli hæð. Það gerir raforkuvinnslu úr vindi enn hagkvæmari þar sem hægt er að hafa lægri möstur en þekkist víða um heim og rekstrarkostnaður verður þar af leiðandi minni. Á Hafinu liggja náttúruleg vindgöng og vindhraði í 55 metra hæð frá jörðu er að jafnaði 10 til 12 metrar á sekúndu. Í hæstu stöðu eru vindmyllurnar um 77 metrar á hæð.

Erlendis eru vindmyllur langoftast við sjó eða á grunnsævi þar sem vindur er jafnan stöðugri en á landi. Þess vegna vekur eftirtekt að meðalnýtnihlutfall vindmyllanna á Hafinu er óvenjuhátt eða um 40%. Til samanburðar er meðalnýtnihlutfall á heimsvísu um 28%.

Nánari upplýsingar um vindmyllurnar á Hafinu eru á vef Landsvirkjunar. Á vefnum má einnig sjá rauntímaupplýsingar um orkuvinnslu vindmyllanna.

Section
Segment

Hvernig virkjum við rokið?

Vindmyllur vinna rafmagn í raun á nákvæmlega sama máta og vatnsaflsstöðvar. Stórt segulhjól snýst inni í koparvafningi og breytir hreyfiorku í raforku. Í vindmyllum er túrbínan fyrir aftan spaðana, vindmyllurnar á Hafinu eru gírkassalausar en helsti kostur þeirra er að líftími lengist og hljóðstig lækkar og bilanatíðni og orkutap minnka verulega.

Vindmyllur vinna rafmagn með ítöku afls úr vindi, þ.e. hægja á vindinum sem þær fanga. Þannig er raunafl vindmylla mismunurinn á vindhraðanum fyrir framan spaðana og fyrir aftan þá. Fræðilega geta vindmyllur að hámarki virkjað 59,3% vindaflsins eða 88,9% af hreyfiorku vindsins. Stærð spaða og eðli vindsins ræður mestu um hversu mikla hreyfiorku er hægt að beisla. Helstu þættir sem hafa áhrif á það eru:

  • Eðlisþyngd lofts. Eðlisþyngdin ákvarðast af hæð yfir sjávarmáli, hitastigi og þrýstingi. Eftir því sem loftþrýstingur er meiri þeim mun þéttara og eðlisþyngra er loftið og þar af leiðandi orkuríkara.
  • Vindhraði. Vindhraði er sá þáttur sem er hvað mikilvægastur hvað varðar vinnsluna en tvöföldun vindhraða gefur áttfalt vindafl. Flestar vindmyllur vinna á bilinu 3–25 m/s.
  • Aflstuðull vindmyllunnar. Stuðullinn segir til um hversu stóran hluta vindmyllan getur fræðilega beislað. Hámarkið er 59,3% en flestar vindmyllur beisla um 45–50%.
  • Strokflötur spaða. Stærri strokflötur eykur ítöku afls úr vindinum. Flöturinn eykst með þvermáli í öðru veldi og því má segja að tvöföldun spaðastærðar geti leitt til allt að fjórum sinnum meiri vinnslu.

Helstu stærðir vindmylla