Section
Segment

Árið 2013 var gerð úttekt á rekstri Blöndustöðvar samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol (HSAP)). Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Blöndustöð upfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur í 14 af 17 flokkum.

Alþjóðleg úttekt á rekstri Blöndustöðvar

Blöndustöð er staðsett á Norðvesturlandi og var tekin í notkun árið 1991. Stöðin er með 150 MW uppsett afl og árleg orkuvinnsla er um 910 GWst á ári. Nánari upplýsingar um Blöndustöð má sjá á vef Landsvirkjunar.

Úttektin var mjög umfangsmikil og fór fram í Blöndustöð og á aðalskrifstofu Landsvirkjunar. Úttektin var unnin af þremur vottuðum erlendum úttektaraðilum sem fóru yfir ítarleg gögn um rekstur stöðvarinnar. Úttektarteymið ræddi við fjölda hagsmunaaðila, bæði innan Landsvirkjunar og yfir 30 einstaklinga utan fyrirtækisins. Má þar nefna fulltrúa ýmissa hagsmunaaðila, stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka. Úttektin fól í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða rekstur Blöndustöðvar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka má nefna samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun.

Niðurstaða úttektarinnar er að Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Segment

Niðurstöður úttektar

Niðurstöður úttektar á rekstri Blöndustöðvar samkvæmt alþjóðlegum lykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana.

kafli2-orkuvinnsla-nidurstodur_uttektar_updated.png
Section
Segment

Alþjóðlegur matslykill um sjálfbæra nýtingu vatnsafls

Úttektin var unnin samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Lykillinn skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun. Matslykillinn var formlega tekinn í notkun árið 2011 og byggir á stöðlum í yfir 20 flokkum sem ætlað er að greina sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Beita má lyklinum á mismunandi stigum, við frumhönnun, verkhönnun, byggingu og rekstur aflstöðva. 

Matslykilinn var unninn á árunum 2008 til 2010 í samstarfi frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélags- og umhverfismála, stjórnvalda víðs vegar um heim, viðskipta- og þróunarbanka og loks Alþjóða vatnsaflssamtakanna, (e. International Hydropower Association (IHA)) sem hafði frumkvæði að gerð matslykilsins. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda var Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri en Landsvirkjun hefur í gegnum aðild að IHA stutt vinnu við þróun matslykilsins frá upphafi.

Tvær úttektir hafa verið unnar hér á landi samkvæmt matslyklinum. Sú fyrri var gerð í maí 2012 en þá var undirbúningur fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá tekin út. Seinni úttektin var á rekstri Blöndustöðvar og fór fram í september 2013.

Niðurstöður beggja úttekta hafa verið nýttar fyrir alla starfsemi Landsvirkjunar. Hafin er vinna á endurskoðun verkferla og á því hvernig aðrar rekstrareiningar og verkefni í undirbúningi uppfylli kröfur matslykilsins. Eftir úttektina 2012 voru verkferlar, m.a. varðandi samskipti og samráð við undirbúning virkjana, endurskoðaðir og fyrirhuguð er heildstæð greining á umhverfis- og samfélagsáhrifum virkjana á Þjórsársvæðinu.

Nánari upplýsingar

Fræðast má nánar um matslykilinn á vef IHA. Skýrslu um úttekt Hvammsvirkjunar, sem framkvæmd var árið 2012, sem og úttektarskýrslu fyrir Blöndustöð má nálgast með því að smella á heiti skýrslanna að neðan.

TitillNúmer
Official Assessment Landsvirkjun Hvammur Iceland - Final
 
Official Assessment Landsvirkjun Blanda Power Station Iceland - Final