Section
Segment

Merkum áfanga var náð á árinu þegar framkvæmdum lauk við Búðarhálsstöð, nýjustu aflstöð Íslendinga. Bygging stöðvarinnar gekk vel og voru öryggis- og umhverfismál til fyrirmyndar á svæðinu. Búðarhálsstöð er staðsett á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og virkjar áður ónýtt 40 metra fall í Tungnaá milli Hrauneyjafoss að Sultartanga. Stöðin var gangsett í mars 2014, uppsett afl hennar er 95 MW og árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst.

Áhersla á öryggismál og umgengni

Miklar kröfur voru gerðar til öryggismála við byggingu Búðarhálsstöðvar. Eftirlitsmenn Landsvirkjunar og verktaka fylgdust náið með því að öryggismálum væri fylgt í hvívetna og að umgengni um vinnusvæðin væri góð. Hjá Ístaki, aðalbyggingaverktakanum á svæðinu, hófst hver vinnudagur á umræðum um verkefni dagsins með sérstaka áherslu á öryggismál og umgengni.

Öryggismál á verkstað við Búðarháls hafa verið til fyrirmyndar allt frá upphafi framkvæmda. Árið 2013 voru skráð 37 atvik þar sem slys urðu á verkstað. Þar af eru fjögur atvik sem leiddu til fjarvista starfsmanna í alls 22 daga. Að fjarvistum loknum snéru allir starfsmennirnir aftur til vinnu. Frá upphafi framkvæmda hafa orðið 10 atvik sem leiddu til fjarvista frá vinnu en ekkert þeirra olli óafturkræfum heilsuskaða.

Brunavarnir Árnessýslu sáu um reglulega þjálfun á slökkviliði á verkstað og á árinu var haldin stór björgunaræfing sem fjölmargir aðilar tóku þátt í. Má þar nefna björgunarsveitir úr nágrannasveitarfélögum, Brunavarnir Árnessýslu og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þar voru meðal annars æfð viðbrögð við eldsvoða á verkstað og björgun á fólki við háskalegar aðstæður.

Section
Segment

Engin skráð umhverfisatvik

Byggingu Búðarhálsstöðvar fylgdi talsvert minna rask en ef farið hefði verið í virkjun á nýju svæði. Allt fylliefni til steypugerðar var til staðar í nágrenni stöðvarinnar, eldri efnisnámur voru nýttar aftur og jarðraski haldið í lágmarki með því að veita vatninu í gegnum jarðgöng. Jarðefni úr gangagerðinni eru notuð til að móta landið í kring og með mótvægisaðgerðum er grætt upp jafnmikið gróðurlendi og fer undir vatn.

Umgengni á vinnusvæðum Ístaks var góð og vakti eftirtekt þeirra sem heimsóttu svæðið. Mikið magn af úrgangi féll til á virkjunarsvæðinu og sá Ístak um alla sorphirðu og flokkun úrgangs. Séð var til þess að úrgangur safnaðist ekki fyrir heldur var gengið frá honum jafnóðum. Mikil áhersla var lögð á að fergt væri yfir allt laust efni, þannig að byggingarefni eða úrgangur næði ekki að fjúka frá vinnusvæðinu. Að sama skapi var vel fylgst með notkun á varúðarmerktum efnum og meðhöndlun spilliefna. Verktakar þurftu að gera grein fyrir varúðarmerktum efnum sem þeir notuðu til framkvæmdanna, gera áhættumat fyrir efnin og kynna sér hvernig þau skyldu meðhöndluð.

Öryggis- og umhverfismál á verkstað við Búðarháls hafa verið til fyrirmyndar allt frá upphafi framkvæmda.

Á vinnusvæðinu voru tvær birgða-­ og afgreiðslustöðvar fyrir olíu. Dísilolía var notuð á flest vinnutæki og haldin var skrá um notkun eldsneytis til að fylgjast með losun gróðurhúsalofttegunda.

Fulltrúi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands kom reglulega í heimsókn á svæðið á árinu til þess að fylgjast með starfsleyfisskyldum rekstri eins og rekstri vinnubúða, mötuneytis, verkstæða og steypustöðvar. Haldin var skrá yfir umhverfisatvik á framkvæmdasvæðinu en ekkert umhverfisatvik átti sér stað á árinu.

Sumarið 2014 verður unnið að lokafrágangi á vinnusvæðum og landmótun þar sem þess er þörf. Á framkvæmdatímanum var lögð áhersla á að vel væri gengið um vinnusvæðin og raski haldið í lágmarki. Þar af leiðandi munu aðgerðir tengdar hreinsun á svæðinu ekki verða umfangsmiklar.

Í tölulegu bókhaldi má sjá yfirlit yfir magn úrgangs frá framkvæmdasvæðinu, notkun dísilolíu verktaka og eftirlitsaðila, losun GHL frá brennslu jarðefnaeldsneytis og urðun úrgangs. Upplýsingar um eldsneytisnotkun starfsmanna Landsvirkjunar á framkvæmdasvæðinu eru færðar inn í heildarlosunarbókhald Landsvirkjunar.