Landsvirkjun rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Norðausturlandi, Kröflustöð og Bjarnarflagsstöð. Landsvirkjun hefur unnið lengi að frekari uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi og eru næstu verkefni fyrirtækisins fyrirhuguð í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Rannsóknir gefa til kynna að svæðin bjóði upp á mikla möguleika til jarðhitavinnslu.
Rannsóknir og vöktun
Fjöldi umhverfisrannsókna hafa farið fram vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Norðausturlandi. Markmiðið er að afla vitneskju um umhverfið svo hægt sé að fylgjast með mögulegum breytingum sem framkvæmdir gætu haft í för með sér. Með þeim hætti er hægt að grípa til aðgerða ef með þarf.
Meðal umhverfisrannsókna má nefna rannsóknir á grunnvatnsflæði, efnasamsetningu grunnvatns, gróðri og fuglalífi. Einnig er fylgst með loftgæðum og veðurfari, yfirborðsvirkni, jarðvegshita, gasflæði, skjálftavirkni, landbreytingum, hljóðvist og breytingum á yfirborði með lágflugsloftmyndum. Þá hafa verið gerðar hæðar- og þyngdarmælingar og unnið að rannsóknum á landmótun, ásýnd, útivist og ferðamennsku.
Náttúrufar við Mývatn er sérstætt og því leggur Landsvirkjun mikla áherslu á að gæta fyllstu varúðar við allar framkvæmdir í nágrenni vatnsins. Á svæðinu hafa verið stundaðar ítarlegar umhverfisrannsóknir og vöktun í tengslum við núverandi rekstur Bjarnarflagsvirkjunar og vegna undirbúnings nýrrar virkjunar. Þar hefur sérstaklega verið hugað að áhrifum á grunnvatn, styrk brennisteinsvetnis, landmótun og ásýnd.
Árlegar rannsóknir og vöktun á yfirborðsvirkni á Kröflusvæðinu hafa staðið yfir í um fjóra áratugi.
Hverfandi áhrif losunar
Bjarnarflagsvirkjun hóf starfsemi fyrir rúmum 40 árum og síðan þá hefur affallsvatn verið losað á yfirborði. Rannsóknir síðustu áratuga benda til að sú losun hafi haft hverfandi áhrif á hita- og efnasamsetningu grunnvatnsins á svæðinu. Affallið sem berst með grunnvatnsstraumnum dreifist vel um grunnvatnskerfið og mælingar sýna að þynning þess sé mjög mikil eða hundrað miljónföld.
Náttúrulegar breytingar á hitastigi grunnvatns hafa hins vegar verið umtalsverðar. Á meðan Kröflueldar stóðu yfir, 1975–1984, varð mikil hækkun á grunnvatnshita og enn þann dag í dag er hitastigið hærra en það var fyrir Kröfluelda.
Vísbendingar eru um að stór hluti volga grunnvatnsstraumsins til Mývatns eigi uppruna sinn að rekja til Kröflusvæðisins.
Losun á jarðhitagasi
Brennisteinsvetni (H2S) er náttúrulegt efnasamband á jarðhitasvæðum og getur styrkur þess verið mjög mismunandi milli svæða. Jarðhitagas er að stærstum hluta koltvísýringur (80–95%), þá brennisteinsvetni (5–20%) en aðrar gastegundir eru í umtalsvert minna magni (< 1%).
Ein helstu umhverfisáhrifin við nýtingu jarðhita er losun á jarðhitagasi út í umhverfið. Frá því í febrúar 2011 hefur Landsvirkjun fylgst með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna jarðhitanýtingar á svæðinu. Styrkur efnisins hefur meðal annars verið mældur í Reykjahlíð við Mývatn auk þess sem fleiri mælistöðvum var bætt við árið 2014. Niðurstöðurnar benda til að styrkur brennisteinsvetnis á svæðinu hafi ekki farið upp fyrir heilsuverndarmörk . Nánar er fjallað um losun brennisteinsvetnis í kaflanum um andrúmsloftið.
Landsvirkjun hefur fylgst með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti á Norðausturlandi frá því í febrúar 2011.
Endurskoðun á umhverfismati
Veruleg umræða hefur verið um virkjunarframkvæmdir í Bjarnarflagi sem hefur kallað á ný sjónarmið varðandi umhverfis- og virkjunarmál á Mývatnssvæðinu.
Í febrúar árið 2004 skilaði Skipulagsstofnun úrskurði um mat á umhverfisáhrifum fyrir jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi. Samkvæmt lögum þurfa framkvæmdir að hefjast innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Að þeim tíma liðnum úrskurðar Skipulagsstofnun um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt.
Landsvirkjun fékk verkfræðistofuna EFLU til að yfirfara niðurstöður matsins frá árinu 2004. Endurmat var gert með tilliti til rannsókna, vöktunar, eftirlits og þróunarvinnu sem farið hefur fram á vegum Landsvirkjunar frá því að matið lá fyrir. Helstu niðurstöður EFLU voru að ekki séu teljandi breytingar á grunnástandi eða lagaramma sem valda því að endurtaka þurfi mat á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun í heild sinni. Hins vegar er bent á að umfjöllun um jarðskjálfta sé ekki ítarleg í gildandi mati á umhverfisáhrifum og vanreifun á jarðskjálftavá gæti kallað á endurmat umhverfisáhrifa þessa tiltekna þáttar. Talið er að aðgerða- og vöktunaráætlun sé í samræmi við niðurstöðu Skipulagsstofnunar en gerðar hafa verið viðbótartillögur hvað varðar vöktunarrannsóknir, tíðni mælinga, aðferðir og framsetningu gagna. Skipulagsstofnun mun nú meta hvort þörf sé á að endurskoða mat á umhverfisáhrifum að hluta eða í heild.
Meðal helstu verkefna á Norðausturlandi árið 2013
- Unnin var samskiptaáætlun fyrir fyrirhugaðar virkjanir á Norðausturlandi. Tilgangur áætlunarinnar er að tryggja markviss samskipti og samráð við hagsmunaaðila og stuðla að opinni og málefnalegri umræðu um starfsemi Landsvirkjunar á svæðinu.
- Árið 2013 var gerð sérstök úttekt á áhrifum jarðhitanýtingar á volga grunnvatsstrauminn til Mývatns. Niðurstöður sýna að engar breytingar hafa komið fram á hitastigi eða efnainnihaldi grunnvatns á svæðinu sem rekja má til nýtingar jarðvarma. Hins vegar eru náttúrulegar breytingar í kjölfar Kröfluelda á áttunda áratugnum töluverðar.
- Náttúrustofa Norðausturlands annast rannsóknir og vöktun á gróðurfari og fuglalífi á áhrifasvæðum fyrirhugaðra og núverandi virkjana á Þeistareykjum, í Bjarnarflagi og við Kröflu. Vöktunin hófst með grunnkortlagningu sumarið 2012 sem var fram haldið árið 2013. Fylgst er með þekju tegunda og tegundahópa í gróðurreitum við Þeistareyki og Kröflu. Í Bjarnarflagi er hins vegar fylgst með útbreiðslu sjaldgæfra háhitaplantna. Vöktun fuglalífs nær til mófugla og fálka á Þeistareykjasvæðinu þar sem varpþéttleiki mófugla er metinn, sem og ábúð og varpafkoma fálka í nágrenni Þeistareykjavirkjunar.
- Vinna hófst við rannsóknir á hljóðvist við Kröflustöð og á fyrirhuguðum virkjanasvæðum í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Rannsóknarverkefnið mun standa yfir í að minnnsta kosti fimm ár. Áætlað er að setja upp þrjá síritandi mæla sumarið 2014 sem nema hljóðstig á öllum þremur svæðunum. Í kjölfarið mun tíðni mælinga fjölga við núverandi aflstöðvar í Kröflu og Bjarnarflagi. Einnig verða settir upp veðurfarsmælar þar sem rannsóknir á hljóðstigi krefjast nákvæmra verðurfarsupplýsinga.
- Vegaframkvæmdum á Þeistareykjavegi var haldið áfram á árinu 2013. Jafnframt fór af stað vinna við að móta raskað land á svæðinu sem best að umhverfinu. Við þá vinnu var haft að leiðarljósi að raskað land fengi yfirbragð sem fellur að nærliggjandi gróðri og landslagi.
- Á árinu 2013 unnu tveir háskólanemar í arkitektúr og landslagsarkitektúr að rannsóknarverkefnum á vegum Landsvirkjunar á Þeistareykjum og í Bjarnarflagi. Verkefnin sneru að landmótun og útliti vegna jarðrasks, lagna, borsvæða, borholuhúsa, hljóðdeyfa og vega. Markmið verkefnanna er að leita leiða til að lágmarka enn frekar neikvæð áhrif af óhjákvæmilegu jarðraski við undirbúning virkjana. Nánar er fjallað um verkefnin í kaflanum um sjónræn áhrif.
Útgefið efni
Að neðan má sjá lista yfir skýrslur er varða rannsóknir og vöktun umhverfismála tengdum jarðhitanýtingu á Norðausturlandi árið 2013. Með því að smella á heiti skýrslu má nálgast rafrænt eintak hennar en skýrslur Landsvirkjunar eru einnig aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.