Markvert á árinu

Section
Segment

Markmið Landsvirkjunar er að vera leiðandi í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið leggur áherslu á heildræna sýn, allt frá virkjanahugmynd að rekstri aflstöðva. Landsvirkjun leitast eftir að skapa sátt um ný verkefni og einsetur sér að reka aflstöðvar sínar með framúrskarandi hætti. Fyrirtækið hefur sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar að leiðarljósi á öllum stigum starfseminnar til að tryggja orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag.

Framúrskarandi rekstur Blöndustöðvar

Á árinu 2013 var gerð úttekt á starfsemi Blöndustöðvar samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP).

Niðurstaða úttektarinnar er að Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Úttektin fól í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða rekstur stöðvarinnar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun.

Tvær úttektir hafa verið unnar hér á landi samkvæmt HSAP-matslyklinum og hafa niðurstöður beggja verið nýttar fyrir alla starfsemi Landsvirkjunar. Sem dæmi má nefna að verkferlar varðandi samskipti og samráð við undirbúning virkjana hafa verið endurskoðaðir og fyrirhuguð er heildstæð greining á umhverfis- og samfélagsáhrifum virkjana á Þjórsársvæðinu.

Landsvirkjun mun nýta reynsluna af úttektinni á Blöndustöð til að gera enn betur á öðrum sviðum í rekstrinum og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindanna.

Blöndustöð er 150 MW vatnsaflsstöð á Norðvesturlandi sem vinnur að jafnaði um 910 GWst á ári inn á flutningskerfi Landsnets. Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur í 14 efnisflokkum af 17.

Section
Segment

Jarðvarmavinnsla á Norðausturlandi

Landsvirkjun hefur unnið lengi að frekari uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi og eru næstu verkefni fyrirtækisins fyrirhuguð á Þeistareykjum og í Bjarnarflagi. Rannsóknir gefa til kynna að svæðin bjóði upp á mikla möguleika til jarðhitavinnslu.

Undirbúningur virkjanaframkvæmda byggist á áratugarannsóknum á
náttúru, lífríki og samfélagi.

Árið 2013 var unnin samskiptaáætlun um fyrirhugaðar virkjanir á Norðausturlandi til að tryggja samráð við hagsmunaaðila. Einnig var gerð sérstök úttekt á áhrifum jarðhitanýtingar á volga grunnvatnsstrauminn til Mývatns. Vöktun á gróðurfari og fuglalífi hélt áfram og í Bjarnarflagi var fylgst sérstaklega með útbreiðslu sjaldgæfra háhitaplantna. Á árinu hófst vinna við rannsóknir á hljóðvist og unnið að því að færa raskað land til fyrra horfs.

Niðurstöður sýna að breytingar á hitastigi og efnainnihaldi grunnvatns á Mývatnssvæðinu megi rekja til náttúrulegra breytinga í kjölfar Kröfluelda á 8. áratugnum.

Landsvirkjun hefur lagt áherslu á að lágmarka áhrif af óhjákvæmilegu jarðraski sem fylgir undirbúningi virkjana. Árið 2013 unnu tveir háskólanemar í arkitektúr og landslagsarkitektúr að rannsóknarverkefni á Norðlausturlandi á vegum Landsvirkjunar. Verkefnin sýna hvernig má stuðla að fallegri ásýnd með því að móta mannvirki að umhverfi og landslagi. 

Unnið var að útliti borholuhúsa sem falla vel að landslagi, gerð útfærsla að göngubrú yfir lögn, bæði til að fegra og til að auka aðgengi almennings að sjálfu virkjanasvæðinu, og unnið að útfærslum á borplani sem eru í takt við umhverfið.

  • bjarnarmynd-hönnun.jpg
  • theistamynd.jpg
  • gongubru_ogskiliti_tekin.jpg
  • hljoddeyfir.jpg
  • ofana_mynd.jpg
Section
Segment

Vindorka hluti af framtíðinni

Norðan við Búrfell er hraunslétta sem kölluð er Hafið. Þrátt fyrir nafnið er Hafið sjötíu kílómetra frá sjó en þar hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Vindmyllurnar voru gangsettar í janúar 2013 og eru þær stærstu sem reistar hafa verið á Íslandi, 0,9 MW hvor.

Þetta er í fyrsta sinn sem hagkvæmni raforkuvinnslu með vindorku er könnuð hér á landi. Nú er eitt rekstrarár að baki og benda allar niðurstöður til þess að aðstæður á Hafinu séu óvenjuhagstæðar fyrir raforkuvinnslu úr vindorku.

Segment

Afkastageta vindmyllanna á uppitíma 2013

Eftir tæplega eitt ár í rekstri hefur meðalnýting vindmyllanna verið um 40%. Til samanburðar er meðalnýting á heimsvísu 28%.

*frá og með 21. jan.

Segment

Líkt og öll stór mannvirki hafa vindmyllur óhjákvæmileg áhrif á ásýnd umhverfisins. Áhrifin eru að verulegu leyti afturkræf en sjálfar vindmyllurnar og undirstöður þeirra má auðveldlega fjarlægja með litlu raski ef leggja á orkuvinnsluna niður.

Landsvirkjun vaktar og stýrir umhverfisþáttum við rekstur bæði vatnsafls- og jarðvarmastöðva og við rekstur vindmyllanna á Hafinu.

  • 1 Áhrif á lífríki

    Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem virkjanaframkvæmdir, vatnaflutningar og tilkoma nýrra mannvirkja geta haft áhrif á náttúru og lífríki. Umfangsmikil vöktun og ítarlegar rannsóknir eru stundaðar á áhrifasvæðum allra aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að meta hvort og þá hvernig starfsemin hefur áhrif á umhverfi sitt og leita leiða til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Stærstu vöktunarþættir Landsvirkjunar snúa að hreindýrum, vatna- og fuglalífi. Rannsóknir eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga.
  • 2 Sjónræn áhrif og landmótun

    Öllum framkvæmdum Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask á umhverfi og við stærri framkvæmdir geta sjónræn áhrif orðið umtalsverð. Áhrifin eru mismunandi og ráðast af landslagseinkennum og nýtingu landsvæða og geta haft áhrif á upplifun fólks. Við hönnun mannvirkja leggur Landsvirkjun áherslu á að skapa heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrlegs landslags.
  • 3 Eldsneyti

    Jarðefnaeldsneyti er óendurnýjaleg auðlind sem m.a. veldur losun gróðurhúsaloftegunda (GHL) og annarra heilsuspillandi efna. Landsvirkjun leggur áherslu á að lágmarka losun GHL með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi fyrirtækisins. Þá leitast Landsvirkjun við að tryggja að öll meðhöldun eldsneytis, þar með talinn flutningur, geymsla og áfylling, valdi ekki tjóni á lífríki og náttúru. Landsvirkjun heldur utan um alla eldsneytisnotkun fyrirtækisins og upplýsir um losun GHL af völdum hennar.
  • 4 Almennur úrgangur

    Við urðun á úrgangi brotnar lífrænn hluti hans niður og myndar metangas sem veldur gróðurhúsaáhrifum. Markmið Landsvirkjunar er að auka endurvinnslu og endurnýtingu og draga þannig úr magni úrgangs sem fer til förgunar. Leitast er við að skapa aðstöðu til flokkunar og geymslu á úrgangi á öllum starfsstöðvum og magn úrgangs skráð.
  • 5 Hljóðvist

    Hávaði vegna starfsemi Landsvirkjunar stafar helst frá blæstri í borholum jarðvarmavirkjana og svo frá vindmyllum. Hávaði getur haft áhrif á upplifun í náttúru og stöðugt áreiti vegna hávaða getur einnig haft heilsuspillandi áhrif. Landvirkjun vaktar hljóðvist og til að draga úr hávaða eru hljóðdeyfar á öllum borholum Landsvirkjunar.
  • 6 Jarðrask vegna framkvæmda og reksturs

    Jarðrask vegna framkvæmda og reksturs við starfsstöðvar Landsvirkjunar getur haft áhrif á lífríki og náttúru. Jarðrask getur m.a. orsakast af efnistöku, aðstöðusköpun, gerð og staðsetningu lóna, stíflna og veituleiða. Landsvirkjun leggur áherslu á að halda jarðraski í lágmarki á öllum stigum framkvæmda og að þeim loknum séu svæðin færð til fyrra horfs eins og unnt er.
Segment

Árið 2013 voru unnar fyrstu athuganir á fuglalífi og flugumferð fugla á svæðinu við Hafið. Talið er að áhrif á fuglalíf muni aðallega birtast í raski á búsvæðum vegna tímabundinna framkvæmda. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar á komandi misserum.

Til að afla þekkingar á þeim fjölmörgu þáttum sem geta orðið fyrir áhrifum af áframhaldandi uppbyggingu er unnið að frekari umhverfisrannsóknum á Hafinu. Ásamt því að huga að ásýnd, hljóðvist, náttúrufari og dýralífi veita rannsóknirnar innsýn inn í rekstur á vindmyllum við séríslenskar aðstæður, ísingu, skafrenning, ösku- og sandfok.

Hljóðstyrkur frá vindmyllunum á Hafinu fellur tiltölulega hratt með fjarlægð og blandast öðrum náttúruhljóðum á borð við árnið og vindgnauð.

Landsvirkjun hefur ákveðið að meta vindorkugetu á Hafinu af meiri nákvæmni og með ítarlegri vindmælingum og hermunum. Meðal þess sem verður rannsakað eru áhrif á umhverfi og samfélag, hagkvæmni uppbyggingar og reksturs og tækifæri sem felast í samspili vind- og vatnsorku.

Section
Segment

Öryggis- og umhverfismál til fyrirmyndar

Merkum áfanga var náð á árinu þegar framkvæmdum lauk við Búðarhálsstöð, nýjustu aflstöð Íslendinga. Búðarhálsstöð er sjötta aflstöðin á stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar, vatnasviði Þjórsár og Tungnaár og er hluti af umfangsmiklu veitukerfi á svæðinu.

Öryggismál á verkstað við Búðarháls hafa verið til fyrirmyndar allt frá upphafi framkvæmda. Eftirlitsmenn Landsvirkjunar og verktaka fylgdust náið með því að öryggismálum væri fylgt í hvívetna og að umgengni um vinnusvæðin væri góð. Brunavarnir Árnessýslu sáu um reglulega þjálfun á slökkviliði á verkstað og á árinu var haldin stór björgunaræfing sem fjölmargir aðilar tóku þátt í.

Segment

Fallhæð og aflstöðvar í Þjórsá og Tungnaá

Búðarhálsstöð virkjar áður ónýtt 40 metra fall í Tungnaá úr frávatni Hrauneyjafossstöðvar að Sultartangalóni.

Segment

Byggingu Búðarhálsstöðvar fylgdi talsvert minna rask en ef farið hefði verið í virkjun á nýju svæði. Allt fylliefni til steypugerðar var til staðar í nágrenni stöðvarinnar, eldri efnisnámur voru nýttar aftur og jarðraski haldið í lágmarki með því að veita vatninu í gegnum jarðgöng. Jarðefni úr gangagerðinni eru notuð til að móta landið í kring og með mótvægisaðgerðum er grætt upp jafnmikið gróðurlendi og fer undir vatn.

Byggingu Búðarhálsvirkjunar lauk formlega á árinu 2013 og á næstu misserum verður unnið að frágangi á svæðinu og uppgræðslu. Markmiðið er að ný aflstöð við Búðarháls verði Landsvirkjun til sóma.

Frá upphafi framkvæmda Búðarhálsvirkjunar hafa orðið 10 atvik sem leiddu til fjarvista frá vinnu en ekkert þeirra olli óafturkræfum heilsuskaða.