Markmið Landsvirkjunar er að nýta auðlindirnar á sem bestan hátt og draga úr losun mengandi efna í umhverfið. Landsvirkjun rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Norðausturlandi, Kröflustöð og Bjarnarflagsstöð. Árlega eru gerðar mælingar á grunnvatni á svæðinu til að vakta áhrif affallsvatns frá stöðvunum.
Yfirborðslosun frá jarðvarmavirkjunum
Frárennslisvatn (þétti- og skiljuvatn) frá jarðvarmavirkjunum inniheldur þungmálma og næringarefni sem að stærstum hluta eiga uppruna sinn í borholuvökva. Hluti þeirra er tilkominn vegna tæringar á vélbúnaði. Náttúrulegur styrkur þessara efna er breytilegur milli staða og er m.a. háður eldvirkni og efnainnihaldi grunnvatns. Sé styrkur efnanna of mikill getur yfirborðslosun haft áhrif á lífríki. Til þess að draga úr umhverfisáhrifum vegna förgunar affallsvatns er hægt að dæla vatninu aftur niður í jarðhitageyminn en einnig getur reynst nauðsynlegt að losa hluta þess á yfirborði.
Með niðurdælingu er þrýstingi haldið uppi í jarðhitageyminum og dregið úr umhverfisáhrifum.
Skiljuvatn frá Kröflustöð er að hluta til losað í yfirborðsvatn og að hluta dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Markmiðið með niðurdælingunni er að halda uppi þrýstingi í jarðhitageyminum og draga úr umhverfisáhrifum. Skiljuvatn frá Bjarnarflagsstöð er allt losað á yfirborði í Bjarnarflagslón og rennur þaðan niður í grunnvatnið um sprungu vestast í lóninu. Efnasamsetning jarðhitavökvans er mæld árlega í öllum borholum og á nokkrum stöðum í vinnslurásinni. Nánari upplýsingar um yfirborðslosun frá jarðvarmavirkjunum síðastliðanna fimm ára eru í tölulegu bókhaldi.
Vöktun grunnvatns
Samkvæmt starfsleyfi er heimild fyrir losun á frárennslisvatni frá Kröflu- og Bjarnaflagsstöð svo framarlega sem styrkur mengandi efna í grunnvatnsstraumnum, þegar vatnið nær niður í Mývatn, sé undir umhverfismörkum I. Mörkin eru skilgreind í reglugerð um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999. Árlega eru gerðar mælingar á grunnvatni í Mývatnssveit til að vakta áhrif skiljuvatnsins frá Kröflu- og Bjarnarflagsstöðvum. Árið 2007 hófst vöktun grunnvatns í Kelduhverfi og á Þeistareykjum í þeim tilgangi að safna grunnupplýsingum vegna fyrirhugaðrar jarðhitanýtingar þar. Með upplýsingunum má greina efnasamsetningu grunnvatnsins við náttúrulegar aðstæður fyrir virkjun.
Áhrif skiljuvatnsins frá Kröflu og Bjarnarflagsstöð eru vöktuð með árlegum mælingum.
Vöktun grunnvatns felur í sér að tekin eru sýni á skilgreindum mælistöðvum og mældur styrkur ákveðinna efna sem finnast í jarðhitavökva, til dæmis arsen. Jarðhitasvæðin eru síbreytileg af náttúrulegum ástæðum, svo sem eldvirkni og jarðhniki, sem og vegna vinnslu vökva úr jarðhitasvæðunum. Mælingarnar eru því gerðar samhliða kortlagningu og rannsóknum á jarðhitavirkni. Árlega er send skýrsla til Umhverfisstofnunar með niðurstöðum mælinga. Verði frávik eða óvæntar niðurstöður er vöktunaráætlunin endurskoðuð.
Grunnvatnsflæði og sýnatökustaðir þar sem fylgst er með áhrifum affallsvatns frá Kröflu- og Bjarnarflagsstöð

Helstu niðurstöður vöktunar á jarðhita og grunnvatni á háhitasvæðum í Mývatnssveit og Kelduhverfi 2012 og 2013:
- Vöktun áranna 2012 og 2013 sýndi engar meiri háttar breytingar á jarðhitavirkni frá fyrri árum.
- Niðurstöður vöktunar á uppleystum efnum í grunnvatni á árunum 1997–2013 sýna að vatn í lindum við Mývatn og í grunnvatni vestan Námafjalls hefur hvorki orðið fyrir áhrifum frá jarðhitavatni frá Bjarnarflagsstöð né Kröflustöð hvað varðar styrk arsens og áls.
- Styrkur kvikasilfurs er undir eða við greiningarmörk og vel innan umhverfismarka á öllum vöktunarstöðum.
- Styrkur arsens var undir umhverfismörkum á vöktunarstöðunum í Langavogi og Vogaflóa árin 2012 og 2013.
Mældur styrkur arsens í grunnvatnssýnum við Vogaflóa og Langavog 1997–2013
Á myndinni sést að styrkur arsens er innan umhverfismarka I öll árin.
Áhrif jarðhitanýtingar í Bjarnarflagi á grunnvatn
Aðrennsli Mývants er að mestu leyti grunnvatn sem streymir úr öllum áttum til lægðarinnar sem vatnið situr í. Streymið er langmest úr suðri og hluti grunnvatnsins hitnar af völdum jarðhitakerfisins í Námafjalli og blandast jarðhitavatni þaðan og frá Kröflu.
Einfaldað líkan af grunnvatnskerfinu við austanvert Mývatn. Heimild: ÍSOR.
Eftirlit á áhrifum jarðhitanýtingar í Bjarnarflagi hefur staðið yfir með einum eða öðrum hætti frá því að boranir hófust 1963. Árið 2013 kom út yfirgripsmikil skýrsla, Áhrif jarðhitanýtingar í Bjarnarflagi á volga grunnvatnsstrauminn til Mývatns. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Líkanreikningar benda til að um 11 m3/s af köldu og volgu vatni falli til Ytriflóa Mývatns og um 17 m3/s til Syðriflóa.
- Margar breytingar hafa orðið á grunnvatni á þessu svæði sem tengjast eldvirkni og umbrotum í sprungusveimnum sem kenndur er við Kröflu. Má þar nefna Mývatnselda 1724–1729 og Kröfluelda 1975–1984. Helst er um að ræða breytingar á efnasamsetningu og hitastigi vatnsins.
- Efnasamsetning og samsætuhlutföll í volgu grunnvatni í Mývatnssveit benda til þess að vatnið sé að litlu leyti gufuhitað grunnvatn, heldur kalt grunnvatn sem blandast hefur jarðhitavökva.
- Tvívetnishlutföll og hlutfall klórs (Cl) og bórs (B) í grunnvatninu benda til þess að jarðhitavökvinn sem hefur blandast grunnvatninu sé ættaður úr jarðhitakerfinu í Kröflu.
Af vöktunarsögunni má draga þá ályktun að hvorki sé ástæða til að búast við áhrifum á Mývatn af núverandi fyrirkomulagi virkjana, né af affallsvökva fyrirhugaðrar virkjunar í Bjarnarflagi sem áætlað er að dæla niður.
Útgefið efni
Að neðan má sjá lista yfir skýrslur sem komu út á árinu og fjalla meðal annars um yfirborðslosun frá jarðvarmavirkjunum. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.