Section
Segment

Landsvirkjun leitast eftir að draga úr magni óflokkaðs úrgangs sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu á úrgangi sem fellur til í starfsemi fyrirtækisins.

Úrgangur flokkaður á öllum starfsstöðvum

Flokkun úrgangs frá starfsemi Landsvirkjunar var innleidd á árunum 2004 til 2008. Síðan þá hefur magn alls úrgangs sem fellur til verið skráð í grænt bókhald fyrirtækisins. Úrgangur á hverri starfsstöð er flokkaður í samræmi við þá flokkun sem boðið er upp á í viðkomandi landshluta. Þá eru spilliefni meðhöndluð samkvæmt lögum og reglum um meðferð þeirra. Á öllum starfsstöðvum Landsvirkjunar er viðeigandi aðstaða til flokkunar og geymslu á úrgangi. Öllum úrgangi og spilliefnum er skilað til viðurkennds móttökuaðila.

Segment

Magn úrgangs til endurvinnslu og förgungar frá rekstri Landsvirkjunar á árunum 2009–2013

Section
Segment

Magn og tegundir úrgangs

Úrgangi frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2013 má skipta í fjóra flokka; úrgang sem fer til endurvinnslu eða endurnýtingar, úrgang sem fer til förgunar, óvirkan úrgang og spilliefni.

Á árinu 2013 fóru 276 tonn af úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar en tæp 35 tonn til förgunar.

Heildarmagn þessara úrgangsflokka var tæp 670 tonn. Mest var um óvirkan úrgang sem er sá úrgangur sem hefur ekki skaðleg áhrif á umhverfið, til dæmis múrbrot, gler og uppmokstur. Á árinu voru til að mynda fjarlægðir steinstöplar undan gömlu aðrennslispípunni við elstu stöðina í Laxá (Laxá I) en við það féllu til um 350 tonn af slíkum úrgangi. Þá voru um 276 tonn af úrgangi send til endurvinnslu eða endurnýtingar, þar á meðal umtalsvert magn af málmum og timbri vegna viðhaldsverkefna í Kröflustöð og Laxárstöðvum. Tæp 35 tonn fóru til förgunar og var sú förgun að langmestu leyti urðun. Tæp 6 tonn af spillefnum voru send til förgunar.

Segment

Magn úrgangs frá starfsemi Landsvirkjunar á árunum 2009–2013

Úrgangi er skipt eftir úrgangsflokkum.

Segment

Hlutfallsleg skipting úrgangs (til vinstri) og spilliefna (til hægri)

Segment

Hjá Landsvirkjun er áhersla er lögð á endurvinnslu og endurnýtingu ásamt því að draga úr magni úrgangs sem fer til förgunar. Magn úrgangs í hverjum úrgangsflokki er talsvert breytilegt milli ára sem skýrist að verulegu leyti af umfangi viðhaldsverkefna hvers árs. Magn úrgangs sem hefur farið til endurvinnslu eða endurnýtingar sveiflast frá um 80 tonnum til tæplega 500 tonna á síðustu fimm árum. Á sama tíma hefur magn óflokkaðs úrgangs til förgunar farið minnkandi í samræmi við markmið fyrirtækisins, eða frá um 70 tonnum árið 2010 niður í tæp 35 tonn árið 2013. Samdrátturinn milli áranna 2012 og 2013 í magni úrgangs til förgunar var um 24%.

Magn óflokkaðs úrgangs til förgunar hefur farið minnkandi í samræmi við markmið Landsvirkjunar.

Árið 2013 dró úr magni óflokkaðs úrgangs í Fljótsdalsstöð og Kröflustöð. Í Fljótsdalsstöð hefur sérstakt hreinsunarátak staðið yfir á fyrrum framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Mikill árangur hefur náðst í söfnun úrgangs frá framkvæmdasvæðinu og verður árangurinn sýnilegri með hverju árinu sem líður. Áætlað er að halda hreinsuninni áfram á árinu 2014. Í Kröflustöð hefur náðst góður árangur með bættri flokkun og góðri skráningu úrgangs og hefur verulega dregið úr magni á óflokkuðum úrgangi frá stöðinni. Á öðrum starfsstöðvum stóð magnið nánast í stað eða jókst lítillega samanborið við árið 2012. Nokkrar skýringar eru á þessu. Til að mynda er aukning á magni óflokkaðs úrgangs í Blöndustöð til komin vegna þess að þrír til fjórir mánuðir geta liðið á milli tæminga gáma. Uppsöfnuðu magni úrgangs getur því verið fargað á næsta rekstrarári. Aðra aukningu á magni úrgangs má rekja til umfangs viðhaldsverkefna á árinu.

Í flestum tilfellum er heildarmagn úrgangs frá aflstöðvunum árið 2013 lægra eða svipað og meðaltal síðustu fimm ára. Ef horft er sérstaklega til starfsstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut í Reykjavík sést að góður árangur hefur náðst þar í bæði flokkun á úrgangi til endurvinnslu og í að draga úr heildarmagni úrgangs. Á Háaleitisbraut er eingöngu um skrifstofustarfsemi að ræða.

Magn spilliefna sem fellur til í starfsemi Landsvirkjunar ræðst að miklu leyti af umfangi viðhaldsverkefna á ári hverju. Árið 2013 féllu til tæplega sex tonn af spilliefnum en mest féll til af rafhlöðum. Öllum spilliefnunum er fargað hjá viðurkenndum förgunaraðila.

Nánari upplýsingar um magn úrgangs frá starfsemi Landsvirkjunar má finna í tölulegu bókhaldi.

Segment

Magn óflokkaðs úrgangs frá starfsstöðvum Landsvirkjunar 2009–2013 

Magn óflokkaðs úrgangs sem fer til förgunar ásamt meðaltali síðustu fimm ára. 

Segment

Magn úrgangs frá starfsstöð Landsvirkjunar á Háaleitisbraut 68 í Reykjavík á árunum 2009–2013