Þó að starfsemi Landsvirkjunar feli í sér nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa með sjálfbærum hætti er það samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins að leggja sitt af mörkum gegn losun gróðurhúsalofttegunda (GHL). Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein mesta umhverfisógn sem steðjar að heimsbyggðinni í dag. Markmið Landsvirkjunar er að vera í fararbroddi við að draga úr losun GHL og verða kolefnishlutlaust fyrirtæki.
Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykktur var árið 1992. Ísland hefur því skuldbundið sig til að grípa til aðgerða sem eiga að draga úr losun GHL og auka bindingu kolefnis. Heildarlosun GHL á Íslandi árið 2011 samkvæmt losunarbókhaldi var 4.413 Gg CO2-ígildi (án tillits til landnotkunar eða breyttrar landnotkunar). Hluti Landsvirkjunar nam það árið tæpum 1,3% af heildarlosuninni, án tillits til kolefnisbindingar, og um 0,8% sé tekið tillit til hennar.
Árið 2014 mun Landsvirkjun vinna að heildstæðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til lengri tíma.
Samantekt á losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar
Stærstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda sem losna frá starfsemi Landsvirkjunar eru útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og losun frá lónum vatnsaflsvirkjana. Aðra losun má rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis, flugferða og förgunar úrgangs. Heildarlosun GHL frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2013 var um 49 þúsund tonn CO2-ígilda og dróst hún saman um 12% miðað við árið 2012. Losunin var jafnframt 20% lægri en árið 2009. Gera má ráð fyrir að raunlækkunin sé enn meiri þar sem árið 2012 var losun GHL vegna millilandaflugferða í fyrsta sinn reiknuð með raunfjölda flugferða en á árunum 2008 til 2011 var losunin áætluð.
Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til þess sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Mælikvarðinn vísar til þess magns gróðurhúsalofttegunda sem við losum beint eða óbeint í okkar daglega lífi. Hægt er að draga úr kolefnisspori með kolefnisbindingu.
Hlutfall losunar GHL í starfsemi Landsvirkjunar 2013. Hjá Landsvirkjun er kolefnissporið skilgreint sem árleg losun GHL vegna starfsemi fyrirtæksins að frádreginni áætlaðri kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun vegna hennar. Landsvirkjun hefur í rúma fjóra áratugi staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna og hefur árleg heildarbinding kolefnis verið metin um 22.000 tonn CO2-ígildi. Á árinu 2013 var samið við Kolvið um að jafna alla kolefnislosun vegna notkunar fyrirtækisins á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og loks vegna förgunar úrgangs. Alls nam þessi losun um 1.027 tonnum CO2-ígilda árið 2013. Sú losun hefur nú verið jöfnuð með bindingu kolefnis í skógarvistkerfum landsins.
Kolefnisbinding felur í sér að auka gróðurþekju svo að gróðurinn geti tekið meiri koltvísýring úr andrúmslofti og dragi þannig úr styrk gróðurhúsalofttegunda.
Kolefnisspor Landsvirkjunar 26 þúsund tonn CO2-ígilda. Samdráttur milli ára er 22%.
Þegar tekið hefur verið tillit til heildarkolefnisbindingar var kolefnisspor Landsvirkjunar árið 2013 um 26 þúsund tonn CO2-ígilda. Kolefnissporið hefur dregist saman um 22% frá árinu áður og um 33% sé miðað við árið 2009. Munar þar mestu um samdrátt í útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og aukna kolefnisjöfnun.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Landsvirkjunar árin 2009–2013
Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar árin 2009–2013 eftir uppsprettum losunar
Kolefnisspor Landsvirkjunar á hverja framleidda GWst árið 2013 dróst saman um 16% miðað við árið 2012 og 28% miðað við árið 2009.
Losun GHL með tilliti til orkuvinnslu Landsvirkjunar árið 2013 var 3,7 tonn CO2-ígilda/GWst ef ekki er tekið tillit til kolefnisbindingar. Losunin er 1,9 tonn CO2-ígilda/GWst sé tekið tillit til kolefnisbindingar. Kolefnisspor Landsvirkjunar á hverja framleidda GWst 2013 dróst því saman um 16% miðað við árið 2012 og 28% sé miðað við árið 2009. Þess ber að geta að þegar losun GHL er miðuð við hverja unna GWst er ekki tekið með útstreymi vegna rannsóknarborana þar sem þær tengjast ekki orkuvinnslu viðkomandi árs. Auk þess er losun vegna þátta sem ekki er með beinum hætti hægt að rekja til viðkomandi orkugjafa skipt upp eftir vægi orkuvinnslunnar. Þetta á meðal annars við kolefnisbindingu og einnig losun vegna flugferða og úrgangs.
Gróðurhúsaáhrif ólíkra orkugjafa Landsvirkjunar, vatnsafls og jarðvarma, með og án kolefnisbindingar 2013
Nokkuð mikill munur er á milli jarðvarmavirkjana og vatnsaflsvirkjana með tilliti til gróðurhúsaáhrifa. Losun GHL á hverja unna GWst í jarðvarmavirkjun er 64,7 tonn CO2-ígilda/GWst án kolefnisbindingar og 62,8 tonn CO2-ígilda/GWst þegar tekið er tilliti til kolefnisbindingar. Losun GHL á hverja unna GWst í vatnsaflsvirkjun er hins vegar mun lægri, eða 1,25 tonn CO2-ígilda/GWst án kolefnisbindingar en verður neikvæð eða -0,54 tonn CO2-ígilda/GWst þegar jafnað hefur verið með tilliti til hennar. Landsvirkjun hefur með öðrum orðum unnið að bindingu kolefnis umfram losun sem jafngildir um 0,54 tonnum CO2-ígilda fyrir hverja framleidda GWst af vatnsorku. Nánari upplýsingar um losun GHL í starfsemi Landsvirkjunar má finna í tölulegu bókhaldi.
Landsvirkjun hefur unnið að bindingu kolefnis umfram losun sem jafngildir um 0,54 tonnum CO2-ígilda fyrir hverja framleidda GWst af vatnsorku.
Gróðurhúsaáhrif jarðvarmavirkjana
Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum kemur jarðhitavökvi upp úr borholum. Jarðhitavökvinn er blanda af vatnsgufu, vatni og ýmsum gastegundum sem eru í vatnsgufunni. Jarðhitagas er að stærstum hluta koltvísýringur, oft í kringum 80–95% af massahlutfalli gass, þá brennisteinsvetni (H2S) sem getur verið frá 5–20%, en aðrar gastegundir eru í umtalsvert minna magni (<1%). Þar á meðal er örlítið af gróðurhúsalofttegundinni metan (CH4). Álitamál er hvort líta beri á útstreymi GHL frá jarðvarmavirkjunum sem losun af mannavöldum eða náttúrulegt útstreymi frá svæðinu en við orkuvinnslu með jarðhita á engin bruni sér stað. Nokkuð breytilegt er milli landa hvort þetta útstreymi er tekið með í loftslagsbókhaldi vegna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna en Ísland er eitt þeirra landa þar sem þetta útstreymi er hluti af loftslagsbókhaldinu.
Hugmyndalíkan fyrir uppruna og streymi koltvísýrings frá eldvirkum háhitasvæðum

Styrkur jarðhitagass í jarðhitavökva er háður hegðun viðkomandi jarðhitakerfis og eru reglulegar mælingar á styrk gass í gufu mikilvægur þáttur í vinnslueftirliti. Breytingar á gasstyrk eru góður mælikvarði á breytingar í jarðhitageyminum og á flæði til yfirborðs. Styrkur jarðhitagass á Kröflusvæðinu jókst verulega á árum Kröfluelda, 1975–1984, en dróst síðan saman eftir að jarðhræringum lauk og gætir þeirrar lækkunar raunar enn.
Mældur gasstyrkur í borholu við Kröflu og heildarflæði jarðhitavökva á árunum 1980–2009
Losun vegna rannsóknarborana á Þeistareykjum eru nú í fyrsta skipti teknar með í kolefnisbókhald Landsvirkjunar þar sem fyrirtækið Þeistareykir ehf., sem stóð fyrir þeim rannsóknum, er nú að fullu í eigu Landsvirkjunar. Útstreymi GHL frá jarðvarmavirkjunum Landsvirkjunar dregst saman miðað við fyrri ár, aðallega vegna breytinga á gasflæði í jarðhitageyminum við Kröflu og vegna lítils háttar samdráttar í orkuvinnslu og rannsóknarborunum.
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu og rannsóknarborana árin 2009–2013
Rannsóknarboranir fóru fram við Kröflu, Bjarnarflag og Þeistareyki.
Losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjunum
Brennisteinsvetni (H2S) er ekki gróðurhúsalofttegund en getur haft neikvæð áhrif á bæði fólk og lífríki. Losun brennisteinsvetnis hefur hingað til verið óhjákvæmilegur þáttur í nýtingu jarðhita á Íslandi. Náttúrulegt útstreymi frá jarðhitsvæðum hefur einnig áhrif á styrk brennisteinsvetnis í andrúmsloftinu. Árið 2010 voru sett umhverfismörk fyrir leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna útstreymis frá jarðvarmavirkjunum (reglugerð nr. 514/2010). Frá og með 1. júlí 2014 má 24 stunda meðaltal ekki fara yfir 50 µg/m3.
Umhverfismörk fyrir styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti
Umhverfismörk | Viðmiðunartími | Mörk [µg/m3] | Fjöldi skipta sem má fara yfir mörk árlega | Gildir frá: |
---|---|---|---|---|
Heilsuverndarmörk | Hámark daglegra hlaupandi 24 stunda meðaltala | 50 | 5 | 2010 |
Heilsuverndarmörk | Hámark daglegra hlaupandi 24 stunda meðaltala | 50 | 0 | 1. júlí 2014 |
Heilsuverndarmörk | Ár | 5 |
Landsvirkjun fylgist með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna jarðhitanýtingar á Norðausturlandi. Mælingar hafa verið gerðar í þéttbýliskjarnanum í Reykjahlíð (Helluhraun) og í Kelduhverfi frá því í febrúar 2011 og birtar á heimasíðu fyrirtækisins. Þá var tveimur viðbótarmælum bætt við í Mývatnssveit árið 2013.
Mælistöðvar brennisteinsvetnis í Mývatnssveit

Ákveðin veðurfarsskilyrði geta takmarkað þynningu gass frá jarðvarmanýtingu og náttúrulegt útstreymi frá jarðvarmasvæðum. Þetta gerist þegar hitaskil myndast nálægt yfirborði sem koma í veg fyrir að lofttegundir frá jörðu stígi upp. Styrkur H2S mælist alla jafna hæstur við þessar aðstæður.
Ákveðin veðurfarsskilyrði geta takmarkað þynningu gass frá jarðvarmavirkjunum

Niðurstöður mælinga á brennisteinsvetni á árunum 2012 og 2013 í Reykjahlíð og Kelduhverfi
Reykjahlíð
- Ársmeðaltal fyrir styrk brennisteinsvetnis að Helluhrauni í Reykjahlíð reiknast 5,8 μg/m3 fyrir árið 2012 og 5,1 μg/m3 fyrir árið 2013. Að teknu tilliti til mælinákvæmni upp á ±3 μg/m3 fór styrkur brennisteinsvetnis því ekki yfir heilsuverndarmörk (5±3 μg/m3) árin 2012 og 2013.
- Daglegt hámark 24 klst. hlaupandi meðaltals af styrk brennisteinsvetnis fór aldrei yfir skilgreind heilsuverndarmörk í Reykjahlíð árin 2012 og 2013 skv. reglugerð.
Kelduhverfi
- Ársmeðaltal fyrir styrk brennisteinsvetnis að Eyvindarstöðum í Kelduhverfi var 1,7 μg/m3 árið 2012 og 1,2 μg/m3 árið 2013. Útreiknuð gildi eru þó ekki marktæk sökum þess að of marga daga vantar í meðaltalið og mælinákvæmnin er ±3 μg/m3.
- Daglegt hámark 24 klst. hlaupandi meðaltals af styrk brennisteinsvetnis fór aldrei yfir skilgreind heilsuverndarmörk í Kelduhverfi skv. reglugerð en talsvert vantaði í mælingar árið 2012 vegna bilunar í mælistöð.
Nánari upplýsingar um niðurstöður mælinga á brennisteinsvetni má finna á vef Landsvirkjunar. Síritun á styrk brennisteinsvetnis við Reykjahlíð er einnig birt á vef fyrirtækisins sem liður í aukinni upplýsingagjöf um starfsemi fyrirtækisins á svæðinu.
Heildarútstreymi H2S frá bæði raforkuvinnslu og rannsóknarborunum dróst umtalsvert saman árið 2013 frá árinu áður og mældist lægra en það var á árunum þar á undan.
Útstreymi brennisteinsvetnis vegna raforkuvinnslu og rannsóknarborana árin 2009–2013
Gróðurhúsaáhrif vegna brennslu jarðefnaeldsneytis og losunar frá rafbúnaði
Losun GHL vegna brennslu jarðefnaeldsneytis er reiknuð út frá magni eldsneytis sem notað er í starfsemi Landsvirkjunar. Áætlun um losun GHL byggir meðal annars á fjölda flugferða starfsmanna Landsvirkjunar auk upplýsinga frá Orkuspárnefnd og flugfélögum. Losun GHL vegna millilandaflugs starfsmanna Landsvirkjunar var metin fram til ársins 2011 og var áætluð losun 250 tonn CO2-ígilda á ári. Árið 2012 fengust hins vegar upplýsingar um raunfjölda millilandaflugferða starfsmanna fyrirtækisins og lækkaði þá losun GHL vegna þeirra töluvert miðað við mat fyrri ára. Losun GHL vegna millilandaflugs árið 2013 var 121 tonn CO2-ígilda.
Árið 2013 voru notuð 270 kg af metani til að knýja ökutæki. Við notkun metans sem eldsneytis á ökutæki spöruðust um 800 kg CO2-ígilda, sé miðað við meðallosun fólksbíls sem knúinn er dísilolíu.
SF6 gas er notað sem einangrunarmiðill háspennubúnaðar í Fljótsdalsstöð og á Þjórsársvæðinu en leki eða óhapp getur valdið losun á gasinu. Gastegundin er mikilvirkust allra gróðurhúsalofttegunda eða 23.900 sinnum virkari en koltvísýringur. Losun GHL frá rafbúnaði hefur mælst einu sinni á síðastliðnum fimm árum, árið 2009.
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis í starfsemi Landsvirkjunar árin 2009–2013
Gróðurhúsaáhrif vegna urðunar og brennslu úrgangs
Urðun úrgangs veldur myndun hauggass vegna niðurbrots lífræns hluta úrgangsins. Hauggas samanstendur aðallega af metani og koltvísýringi en umhverfisáhrif metans eru mikilvirkari þar sem metan er talið vera um 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Árið 2013 dró verulega úr magni óflokkaðs úrgangs sem fór til urðunar miðað við fyrri ár og þar með úr losun GHL.
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna förgunar úrgangs í starfsemi Landsvirkjunar árin 2009–2013
Útgefið efni
Að neðan má sjá skýrslu um niðurstöður mælinga á styrk brennisteinsvetnis árin 2012 og 2013. Greint er frá losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisspori Landsvirkjunar í umhverfisskýrslu hvers árs en fyrri umhverfisskýrslur má nálgast á vef Landsvirkjunar.
Titill | Númer |
---|---|
Styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti í Reykjahlíð og Kelduhverfi | LV-2014-029 |