Námafjall í Mývatnssveit
Aðrennsli Mývants er að mestu leyti grunnvatn sem streymir úr öllum áttum til lægðarinnar sem vatnið situr í. Hluti grunnvatnsins hitnar af völdum jarðhitakerfisins í Námafjalli og blandast jarðhitavatni þaðan og frá Kröflu.
Losun
Hlýnun jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa er ein helsta umhverfisvá sem heiminum stafar hætta af. Þar vegur þungt losun gróðurhúsalofttegunda vegna orkuvinnslu með jarðefnaeldsneyti. Landsvirkjun notar endurnýjanlega orkugjafa til raforkuvinnslu og það er markmið fyrirtækisins að vera kolefnishlutlaust fyrirtæki. Þá reynir Landsvirkjun eftir fremsta megni að draga úr losun mengandi efna út í umhverfið og starfar eftir vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001. Kerfið felur í sér umfangsmikla vöktun á sviði umhverfismála og ítarlega skráningu á allri losun frá starfsemi fyrirtækisins.
Kolefnishlutlaus starfsemi
Við raforkuvinnslu Landsvirkjunar losna gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftið. Það gerist meðal annars vegna brennslu jarðefnaeldsneytis í bifreiðum og tækjum, losunar vegna flugferða og brennslu og urðunar úrgangs sem og losunar sem tengist raforkuvinnslunni beint.
Heildarlosun GHL frá starfsemi Landsvirkjunar 2013.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2013 var um 49 þúsund tonn CO2-ígilda. Losunin dróst saman um 12% miðað við árið 2012 og var jafnframt 20% lægri en árið 2009.
Stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda sem losna frá starfsemi Landsvirkjunar er útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og losun frá lónum vatnsaflsvirkjana.
Helstu ferli gróðurhúsalofttegunda sem verða þegar land fer undir vatn

Losun gróðurhúsalofttegunda er málaflokkur sem verður sífellt veigameiri. Í umhverfisstjórnun Landsvirkjunar er lögð áhersla á að fyrirtækið horfi ekki eingöngu inn á við, heldur takist einnig á við ytri umhverfismál, sbr. loftslagsbreytingar og gerð er krafa um að fyrirtækið sýni fram á umbætur í málaflokknum.
Heildarlosun Landsvirkjunar á gróðurhúsalofttegundum dróst saman um 12% frá árinu 2012.
Losun frá jarðvarmavirkjunum
Markmið Landsvirkjunar er að draga úr losun mengandi efna í umhverfið. Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum kemur jarðhitavökvi upp úr borholum. Vökvinn er blanda af vatnsgufu, vatni og ýmsum gastegundum sem eru í vatnsgufunni. Jarðhitagas er að stærstum hluta koltvísýringur og styrkur þess í jarðhitavökva er háður hegðun viðkomandi jarðhitakerfis. Mælingar á gasstyrk í gufu er því mikilvægur þáttur í vinnslueftirliti.
Hugmyndalíkan fyrir uppruna og streymi koltvísýrings frá eldvirkum háhitasvæðum

Landsvirkjun rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Norðausturlandi, Kröflustöð og Bjarnarflag. Árlega eru gerðar mælingar á grunnvatni í Mývatnssveit til að vakta áhrif affallsvatns frá stöðvunum. Niðurstöður vöktunar benda til að vatn í lindum við Mývatn og grunnvatn vestan Námafjalls hafi ekki orðið fyrir áhrifum jarðhitavatns frá rekstri stöðvanna.
Niðurstöður vöktunar benda til að vatn í lindum Mývatns hafi ekki orðið fyrir áhrifum jarðhitavatns frá vinnslustöðvum á svæðinu.
Árið 2007 hófst vöktun grunnvatns í Kelduhverfi og á Þeistareykjum í þeim tilgangi að safna grunnupplýsingum vegna fyrirhugaðrar jarðhitanýtingar á svæðinu. Vöktunin veitir upplýsingar um hver náttúruleg efnasamsetning grunnvatnsins er og þá hvort og hvernig hún mögulega breytist eftir að rekstur nýrrar virkjunar hefst.
Eftirlit með áhrifum jarðhitanýtingar í Bjarnarflagi hefur staðið yfir í rúm 40 ár. Af vöktunarsögunni má draga þá ályktun að ekki sé ástæða til að búast við áhrifum á Mývatn af núverandi fyrirkomulagi virkjana. Enn fremur er ekki búist við áhrifum vegna affallsvökva fyrirhugaðrar virkjunar í Bjarnarflagi sem áætlað er að dæla niður.
Kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt
Landsvirkjun hefur í rúma fjóra áratugi staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna. Með landgræðslu er unnið að endurheimt landgæða, komið í veg fyrir jarðvegsrof og dregið úr raski á gróðurlendum.
Árleg heildarbinding kolefnis á vegum Landsvirkjunar er áætluð um 22.000 tonn CO2-ígildi. Kolefnisspor Landsvirkjunar dróst saman um 22% milli ára.
Á árinu 2013 samdi Landsvirkjun við Kolvið um að jafna alla kolefnislosun vegna notkunar Landsvirkjunar á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og loks vegna förgunar úrgangs. Alls nam þessi losun um 1.027 tonnum CO2-ígilda árið 2013. Sú losun hefur nú verið jöfnuð með bindingu kolefnis í skógarvistkerfum landsins.
Flokkun úrgangs og aukin endurvinnsla
Landsvirkjun vinnur ötullega að því að auka endurvinnslu og endurnýtingu með það að markmiði að draga úr magni óflokkaðs úrgangs sem fer til förgunar. Í dag er úrgangur flokkaður á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Flokkunin var innleidd á árunum 2004 til 2008 og síðan þá hefur magn alls úrgangs sem fellur til verið skráð í grænt bókhald fyrirtækisins.
Magn óflokkaðs og flokkaðs úrgangs frá rekstri Landsvirkjunar á árunum 2009–2013.
Síðustu fimm ár hefur magn óflokkaðs úrgangs til förgunar farið minnkandi í samræmi við markmið fyrirtækisins. Árið 2010 var magn óflokkaðs úrgangs um 70 tonn en árið 2013 var magnið komið niður í tæp 35 tonn. Magn óflokkaðs úrgangs til förgunar hefur dregist saman um 24% frá árinu 2012.
Hljóðstig undir hávaðamörkum
Hávaði er skilgreindur sem óæskileg eða skaðleg hljóð sem stafa meðal annars af athöfnum fólks. Landsvirkjun fylgist með hljóðstigi við jarðvarmavinnslu og hóf á árinu fimm ára rannsókn á hljóðvist við Kröflustöð og á fyrirhuguðum virkjanasvæðum í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Við rannsóknir á hljóðstigi er mikilvægt að hafa nákvæmar verðurfarsupplýsingar og því hafa einnig verið settir upp veðurfarsmælar. Markmiðið verkefnisins er að tryggja að kröfur um hávaðamörk séu uppfylltar.
Markmið Landsvirkjunar er að halda hljóðstigi innan hávaðamarka á vinsælum ferðamannastöðum sem liggja innan iðnaðarsvæða fyrirtækisins á Mývatnssvæðinu.