Section
Segment

Landsvirkjun rekur 14 vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið. Stjórnun raforkuvinnslu í vatnsaflsvirkjunum fer fram með því að stýra innrennsli vatnsins úr lónunum inn í virkjanir. Við raforkuvinnslu er leitast við að hámarka nýtingu vatnsins sem geymt er í lónunum.

Rennslisstýring í lokuðu vatnsaflskerfi

Orkuvinnslukerfið á Íslandi er lokað kerfi án tengingar við önnur orkukerfi. Þess vegna er mikilvægt að vatnsforðinn í lónunum sé nógur til að tryggja örugga orkuafhendingu. Vatnsforðinn er því að meðaltali um 10% meiri en orkuvinnslan. Það þýðir að um 10% af vatnsforða miðlunarlónanna rennur fram hjá virkjunum og nýtist ekki til orkuvinnslu. Hefur það verið tilfellið í 15 af síðustu 17 árum.

Á meðalvatnsári fara um 10% af vatnsforða miðlunarlónanna á yfirfall.

Hringrás vatnsins er nýtt til að vinna rafmagn og eðli málsins samkvæmt er framleiðslan háð veðurfari hverju sinni. Á sumrin er bráðnun jökla safnað í miðlunarlón og vatnið nýtt yfir vetrartímann. Stjórnun raforkuvinnslu vatnsaflsvirkjana felst í að stýra innrennsli vatns úr inntakslónum inn í virkjanir og hámarka þannig vatnsnýtinguna. Rennslisstýring kemur í veg fyrir örar sveiflur á rennsli og hraðar breytingar í lónhæð, þar sem slíkar breytingar geta haft neikvæð áhrif á lífríki, jarðveg og samfélag.

Rennslisstýring kemur í veg fyrir örar sveiflur á rennsli og hraðar breytingar í lónhæð, þar sem slíkar breytingar geta haft neikvæð áhrif á lífríki, jarðveg og samfélag.


Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að draga úr sveiflum og vatnshæðarbreytingum í samvinnu við sérfræðinga og heimamenn á vinnslusvæðum fyrirtækisins. Vatnsstýring allra vatnsaflsvirkjana Landsvirkjunar er skilgreind í verklagsreglum um fastbundnar takmarkanir á rennsli. Einnig eru settar tímabundnar takmarkanir um rennsli, til dæmis vegna laxveiða og rennslis í fossum.

Section
Segment

Vatnsárið 2013

Vatnsbúskapur Landsvirkjunar var slakur á árinu 2013. Miðlarnir stóðu lágt um vorið og sumarið var kalt og þurrt. Við upphaf vetrar vantaði 600 Gl í vatnsmiðlanir fyrirtækisins og það sem eftir lifði ársins var veður áfram óhagstætt fyrir vatnsöflun. Þar af leiðandi fór lítið vatn á yfirfall.

Rennsli til miðlana og lóna Landsvirkjunar árið 2013 var nokkuð frábrugðið rennsli fyrri ára. Á vestanverðu landinu, á vatnasviði Þjórsár, Tungnaár og Blöndu, urðu miklar leysingar í febrúar. Nánast allan snjó á svæðunum tók upp og tífaldaðist innrennsli um tíma. Það sem eftir lifði vetrar og fram á vor var úrkoma á svæðunum ákaflega lítil. Í lok vetrar var nánast enginn uppsafnaður snjór og vorflóð því mjög lítil. Leysing frá jöklum var undir meðallagi og í lok sumars vantaði nokkuð upp á að lón fylltust á vatnasviðinu.

Á Austurlandi safnaðist hins vegar upp mikill snjór yfir veturinn en vorið var fyrst um sinn kalt. Í lok maí mældist lægsta vatnsborð Hálslóns til þessa, 570 m.y.s., sem er 55 metrum undir hæstu stöðu vatnsborðsins. Í byrjun júní hlýnaði hratt og rennsli jókst í ám og lækjum á öllu Austurlandi. Hálslón fylltist í lok ágúst en lítið vatn fór á yfirfall. Lónið var fullt í um þrjár vikur áður en vatnsborðið tók að lækka aftur.

Segment

Áætlaður miðlunarforði rekstrarárið 2013 ásamt raungildi ársins

Svarta línan sýnir áætlað meðalgildi en rauða línan sýnir mælt raungildi ársins, skyggða svæðið sýnir hæsta og lægsta gildi.

Section
Segment

Samvinna við ferðaþjónustuaðila

Vorið 2013 var óvenjukalt á Austurlandi. Leysingar hófust seint og í lok maí náði Hálslón sinni lægstu stöðu frá því Fljótsdalsstöð var gangsett 2007.

Í skilyrði sem sett er fyrir rekstrarleyfi Fljótsdalsstöðvar segir að Landsvirkjun skuli nýta yfirfallsvatn frá Jökulsárveitu (Ufsarlóni) á skipulegan hátt á ferðamannatíma. Markmiðið sé að draga úr áhrifum á röð fossa á svæðinu og ná meðalrennsli í farvegum Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár í júlí og ágúst í góðum vatnsárum. Í lakari vatnsárum skal Landsvirkjun leggja áherslu á að hafa rennsli á ferðamannatíma í farvegi Jökulsár í Fljótsdal og síðan í Kelduá eftir því sem yfirfallsvatn dugar til.

Vegna lágrar stöðu Hálslóns var nær allt vatn frá Jökulsárveitu (Ufsarlóni) nýtt til raforkuvinnslu og lítið sem ekkert vatn fór á yfirfall. Þar af leiðandi var aðeins náttúrlegt innrennsli frá ám og lækjum í farvegi Jökulsár í Fljótsdal neðan Ufsarlóns. Miklar leysingar urðu í byrjun júní á vatnasvæði árinnar. Rennsli hennar fór töluvert yfir meðalrennsli en lækkaði síðan aftur og fór vel undir meðalrennsli.

Í sumar var höfð samvinna við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um rennsli á fossaröð í Jökulsá í Fljótsdal.

Frá lokum júlí var farið að miðla vatni úr Ufsarlóni og samvinna höfð við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um rennsli á fossaröðinni í Fljótsdal. Þetta var fyrsta sumarið sem skipulagðar skoðunarferðir voru að fossaröðinni og tókst samstarf ferðaþjónuaðila og Landsvirkjun með miklum ágætum.

Árleg aurskolun úr Ufsarlóni var síðan framkvæmd um mánaðarmót ágúst og september en áætlað magn útskolaðs aurs er á hverju ári um 120.000 m3. Þann 16. september fylltist Hálslón og eftir það var vatn frá Jökulsárveitu nýtt til orkuvinnslu.

Segment

Rennsli í Jökulsá í Fljótsdal mælt við Hrakstrandarfoss og Hól sumrin 2012 og 2013

Hrakstrandarfoss er efsti fossinn í röð fossa í Fljótsdal og Hóll stendur ofan við Fljótsdalsstöð áður en áin sameinast útfalli Fljótsdalsstöðvar.

Segment

Rennsli í Jökulsá í Fljótsdal er mælt við Hrakstrandarfoss og við Hól

Kort-02-updated1.jpg
Section
Segment

Jöklarannsóknir Landsvirkjunar

Landsvirkjun stundar umfangsmiklar jöklarannsóknir þar sem meðal annars er fylgst með langtímabreytingum og afrennsli þeirra jökla sem mikilvægir eru fyrir vatnsbúskap fyrirtækisins. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands en samstarfið hefur verið nær óslitið frá 1981. Landsvirkjun hefur einnig átt samstarf með Jöklarannsóknarfélagi Íslands (JÖRFÍ) frá því um miðjan 8. áratuginn.

Árlega er farið í mælileiðangra á Vatnajökul og Langjökul þar sem gögnum er safnað til frekari úrvinnslu. Mælingar og rannsóknir beinast að nokkrum grunneiginleikum jökla en þar á meðal eru:

  • Mat á vatnsforða sem bundinn er í jöklum
  • Mælingar á sumar-, vetrar- og ársafkomu, afrennsli og ísskriði
  • Mælingar á lögun yfirborðs og flatardreifingu þess
  • Mælingar á langtímabreytingum á ísforða og afrennsli
  • Könnun á tengslum jökulleysingar við veður- og orkuþætti
  • Líkangerð af hreyfingu og lögun jökla og afrennsli frá þeim í fortíð, nútíð og framtíð
  • Könnun á rennslisleiðum vatns við jökulbotn og flutningstíma bræðsluvatns að jökulsporðum
  • Þróun og endurbætur ísflæðilíkana ásamt rannsókn á óstöðugu ísflæði (m.a. framhlaupum), orsakaþáttum og áhrifum þess
  • Skammtímaspár um afrennsli jökla
Section
Segment

Umfangsmiklar mælingar

Vetrar- og sumarafkoma er mæld á 23 mælistöðvum á Langjökli og 50–60 stöðvum á Vatnajökli. Nákvæmum hæðarsniðum er einnig safnað með því að aka á jöklunum með GPS-landmælingartæki. Árlega eru eknir um 200–300 km á Langjökli og um 1.000 km á Vatnajökli. Gögnin nýtast við að leiðrétta hæðarlíkön af jöklunum og meta breytingar í hæðardreifingu þeirra. Á Tungnaárjökli og austanverðum Brúarjökli hafa einnig verið sett upp rör til mælinga á láréttum og lóðréttum hraða jökulsins en slík gögn eru mikilvæg til líkangerðar á ísflæði jökla.

Mælingar á afrennsli frá jöklum ná nú yfir rúmlega tuttugu ár og sýna gögnin mikinn breytileika milli ára eða allt að tvöföldun. Mestur er breytileikinn fyrir afrennsli í Hálslón þar sem snjókoma að sumri getur dregið mjög úr leysingu. Aska frá eldgosum og áfok af hálendinu hafa einnig mikið að segja um hvert afrennsli er frá jöklum.

Segment

Aflstöðvar Landsvirkjunar, helstu lón og jöklar

Kort-12-update-02.jpg
Segment

Mælt meðalársrennsli til helstu lóna vegna leysinga á jöklum 

Sýnt er meðalársrennsli frá upphafi mælinga vegna jökulleysinga en ekki er tekið tillit til sumarúrkomu á jöklum, úrkomu og leysinga utan jökla sem og viðbóta frá grunnvatnskerfum.

Segment

Á Langjökli og Vatnajökli eru reknar veðurstöðvar sem mæla og safna gögnum um hita, raka, leysingu, vindstyrk og stefnu, sólgeislun og hitageislun að og frá yfirborði. Veðurstöðvarnar skila mikilvægum upplýsingum í rauntíma sem eykur áreiðanleika á mati á stöðu jöklaleysinga.

Auk árlegra afkomumælinga er einnig unnið að ýmsum rannsóknarverkefnum og líkangerð sem byggir að stórum hluta á gagnaöflun frá mælileiðangrum. Þessi verkefni auka skilning á hegðun jökla, breytingum þeirra í tíma og hvers má vænta þegar litið er til framtíðar.

Segment

Mælingar á lofthita, heildargeislum til leysingar og snjóhæð við veðurstöð á Tungnaárjökli sumarið 2013 

Í maí var hiti undir frostmarki og leysing engin. Um mánaðarmótin maí/júní hlýnaði í veðri og geislunarorka til leysinga jókst. Samhliða hófst leysing á vetrarsnjó og jökulís sem var nokkuð jöfn fram í miðjan ágúst. Meðalhiti og heildargeislun lækkaði eftir það en sumarið 2013 var frekar kalt og jöklaleysing lítil. 

Section
Segment

Framhlaup Brúarjökuls

Framhlaup Brúarjökuls. Síðast hljóp jökullinn um 9 km árin 1963–1964.

Eins og flestir stærri skriðjöklar Vatnajökuls er Brúarjökull framhlaupsjökull. Brúarjökull hefur hlaupið fram á um 80 ára fresti, jökullinn hljóp síðast fram um 9 km árin 1963–1964 og því líklegt að jökullinn hlaupi aftur fram fyrir miðja öldina. Við framhlaup verður veruleg breyting á hæðardreifingu jökulsins, hann lækkar um u.þ.b. 50 m á safnsvæði (efri hluti jökulsins) en leysingasvæðið (neðri hluti jökulsins) gengur fram um nokkur hundruð metra upp í tug kílómetra. Við þetta lækkar meðalhæð jökulsins, flatarmál hans vex og afrennsli frá honum verður meira, jafnvel tugum prósenta meira fyrstu árin eftir framhlaup.

Þekking á eðli framhlaupa, einkum hvenær þau verða, er takmörkuð og er einn helsti veikleiki í gerð reiknilíkana af hreyfingu jökulíss. Ef Brúarjökull hleypur fram á næstunni gæti hann gengið inn í innsta hluta Hálslóns og haft tímabundin áhrif á rýmd lónsins.

Í dag er unnið að því að auka skilning á framhlaupum með því að greina betur eldri gögn og afla nýrra. Frá því að afkomumælingar hófust á Brúarjökli árið 1992, hefur yfirborðshæð verið mæld nákvæmlega að vori og hausti sem og meðalskriðhraði. Skriðhraði hefur einnig verið mældur samfellt á nokkrum stöðum síðustu ár. Þessi gögn gefa mikilvægar upplýsingar um hreyfisvið jökulsins og tengsl þess við breytilegt vatnsrennsli við botninn. Með því að styðjast við upplýsingar um afkomu á mælistöðum, ásamt upplýsingum um hæðarbreytingar, má meta lóðréttan hraða jökulíss til að fylgjast með massasöfnun á efri hluta jökulsins.