Section
Segment

Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Í rekstri jarðvarmavirkjana Landsvirkjunar er leitast við að nýta þann jarðhitavökva sem tekinn er út úr jarðhitakerfinu á sem hagkvæmastan hátt. Landsvirkjun rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Mývatnssvæðinu, Kröflustöð og Bjarnarflagsstöð.

Örugg vinnsla jarðvarma

Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum kemur jarðhitavökvi upp úr borholum. Hann er blanda af vatnsgufu, jarðhitavatni og ýmsum gastegundum sem eru í vatnsgufunni. Eftir að jarðhitavökvi frá vinnsluholum hefur farið í gegnum gufuskiljur er gufan nýtt til raforkuvinnslu en frárennslinu er ýmist fargað á yfirborði eða dælt niður í jarðhitageyminn (djúpförgun). Auk raforkuvinnslu á Mývatnssvæðinu leggur Landsvirkjun til heitt skiljuvatn til baðlóns við Jarðbaðshóla, í varmaskiptastöð Hitaveitu Reykjahlíðar og til iðnaðar.

Ein meginundirstaða reksturs jarðvarmavirkjana er gæði jarðhitavökvans. Þar af leiðandi eru ýmsar hönnunarforsendur byggðar algjörlega á efnainnihaldi vökvans og ber þar sérstaklega að nefna útfellingar- og tæringarhættu í vinnslurásinni. Landsvirkjun fylgist náið með ástandi jarðhitakerfisins á Mývatnssvæðinu. Markmiðið er að tryggja örugga vinnslu jarðvarmans og draga úr umhverfisáhrifum.
Jarðhitavökvinn er vaktaður með árlegri sýnatöku og oftar ef ástæða þykir til. Nánari upplýsingar um niðurstöður árlegrar vöktunar á grunnvatni og losun efna í yfirborðsvatn eru í kaflanum vatn og jarðvegur. Nánari upplýsingar um losun gass til andrúmsloftsins má finna í kaflanum andrúmsloftið.

Landsvirkjun leggur til heitt vatn og gufu til baðlóns og iðnaðar á Mývatnssvæðinu sem skref í átt að betri heildarnýtingu auðlindarinnar.

Segment

Yfirlitsmynd af nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu

 
 
Section
Segment

Raforkuvinnsla jarðvarmavirkjana Landsvirkjunar

Á árinu 2013 voru 5.634 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 500,5 GWst af rafmagni. Við vinnsluna féllu til 5.190 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni. Þá var 3.067 þúsund tonnum af skiljuvatni dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Magn vatns í jarðhitavökvanum hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár en magn gufu hefur dregist saman. Afkastarýrnun í holunum er helsta ástæða samdráttarins en vermi borhola hefur áhrif á hlutfall vatns og gufu í jarðhitavökvanum. Með lækkandi vermi minnkar orkuinnihald vökvans og meira vatn fellur til.

Djúpförgun á skiljuvatni getur stuðlað að betri nýtingu jarðhitakerfisins. Með djúpförgun má minnka umhverfisáhrif jarðvarmavinnslu á yfirborði og draga úr magni mengandi efna eins og þungmálma, sem geta farið út í yfirborðsvatn. Djúpförgun skiljuvatns frá Kröflu hófst árið 2002. Árið 2012 var gangsettur afkastameiri dælubúnaður til verksins sem varð til þess djúpförgun jókst nokkuð árið 2013 samanborið við síðastliðin fjögur ár.

Segment

Magn gufu og vatns til raforkuvinnslu jarðvarmavirkjana

Magn gufu og vatns sem nýtt var til raforkuvinnslu á árunum 2009–2013 og magn skiljuvatns sem var djúpfargað á sama tímabili. 

Section
Segment

Rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðra framkvæmda

Á undanförnum árum hefur verið talsvert um rannsóknarboranir á Norðausturlandi vegna fyrirhugaðrar virkjunar jarðvarma á Kröflusvæðinu, í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. Rannsóknarboranir á Þeistareykjum eru nú í fyrsta skipti teknar með þar sem fyrirtækið Þeistareykir ehf., sem stóð fyrir þeim rannsóknum, er nú að fullu í eigu Landsvirkjunar. Á árinu 2013 var umfang rannsóknarborana á Þeistareykjum talsvert minna en undanfarin ár. Ekki er um neina djúpförgun að ræða vegna rannsóknarborana en öllu vatni frá borsvæðinu var veitt niður í hraunið vestan við borsvæðið þar sem grunnvatsborðið er á um 100 metra dýpi.

Segment

Magn gufu og vatns vegna rannsóknarborana 

Magn gufu og vatns sem kom upp við rannsóknarboranir við Kröflu, Bjarnarflag og Þeistareyki á árunum 2009–2013.