Auðlindir
Jarðhiti, fallvötn og vindafl eru auðlindir sem Landsvirkjun nýtir til orkuvinnslu. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að nýtingin sé með sjálfbærum hætti þar sem tekið er tillit til umhverfis, samfélags og efnahagslegra þátta. Markmið Landsvirkjunar er að stuðla að jákvæðum áhrifum af rekstri fyrirtækisins. Um leið og starfsemin miðar að því að hámarka nýtingu auðlindarinnar stefnir Landsvirkjun að því að draga úr notkun óendurnýtanlegra orkugjafa eins og jarðefnaeldsneyti.
Þekking er forsenda framfara
Umhverfisrannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi Landsvirkjunar enda nauðsynlegar til að afla þekkingar á auðlindum landsins og á þeim fjölmörgu þáttum sem geta orðið fyrir áhrifum af starfsemi fyrirtækisins.
Landsvirkjun stundar ítarlegar rannsóknir á lífríki, jarðfræði, veður- og vatnafari, jöklum, landslagi, fornleifum, ferðamennsku og fjölmörgu öðru.
Við fyrstu athugun á virkjanahugmyndum skiptir miklu máli að hafa góðar upplýsingar um náttúrufar og samfélag. Slíkar upplýsingar skapa þekkingu sem nýtist þegar virkjunarkostir eru teknir til skoðunar. Eftir að virkjun er hafin taka við ítarlegar vöktunarrannsóknir sem gefa sýn á hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hefur áhrif á umhverfið.
Vatnsafl er stærsti orkugjafinn í raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Jarðvarmi er 4%.
Í fyrstu beinast vöktunarrannsóknir að fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum sem er ætlað að draga úr áhrifum framkvæmda. Eftir að virkjun er lokið og rekstur aflstöðvar hefst beinast vöktunarrannsóknir að einstökum umhverfisþáttum. Enn fremur er árangur mótvægisaðgerða vaktaður til að meta hvort úrbóta sé þörf.
Orkan í ánum
Landsvirkjun fylgist náið með vatnafari á starfs- og rannsóknarsvæðum fyrirtækisins. Markmiðið er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og öðlast betri þekkingu á auðlindinni. Landsvirkjun stundar rannsóknir á afkomu jökla, veður- og vatnakerfum til að fylgjast með langtímabreytingum sem gætu haft áhrif á vatnsbúskap og umhverfi. Á árinu 2013 var heildarorkuvinnsla með vatnsafli 12.337 GWst.
Vetrar- og sumarafkoma jökla er mæld á 23 mælistöðvum á Langjökli og 50 til 60 mælistöðvum á Vatnajökli.
Við rekstur vatnsaflsvirkjana er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar, meðal annars með rennslisstýringu. Slík stýring tryggir betri vatnsnýtingu og með henni má einnig koma í veg fyrir örar sveiflur á rennsli og hraðar breytingar í lónhæð, sem geta haft neikvæð áhrif á umhverfið.
Þar sem hringrás vatnsins er nýtt til að vinna rafmagn er framleiðslan eðli málsins samkvæmt háð veðurfari hverju sinni. Vatnsorkukerfið er þannig uppbyggt að á sumrin er bráðnun jökla safnað í miðlunarlón og vatnið nýtt yfir vetrartímann.
Árið 2013 var rennsli til miðlana og lóna Landsvirkjunar nokkuð frábrugðið rennsli fyrri ára og var vatnsbúskapur Landsvirkjunar slakur. Miðlarnir stóðu lágt um vorið og sumarið var kalt og þurrt. Við upphaf vetrar vantaði 600 Gl í vatnsmiðlanir fyrirtækisins og það sem eftir lifði ársins var veður áfram óhagstætt fyrir vatnsöflun.
Rennslisstýringu er beitt til að hámarka nýtingu og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Við Hálslón varð í fyrsta skipti vart við sandfok úr lóninu. Sandgryfjur, sem grafnar höfðu verið við lónið, sönnuðu þá ágæti sitt en töluverður sandur safnaðist í gryfjurnar.
Sumarið 2013 var höfð samvinna við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um rennsli á fossaröð í Jökulsá í Fljótsdal.
Vegna lágrar stöðu Hálslóns var frá lokum júlí farið að miðla vatni úr Ufsarlóni. Það kallaði á samvinnu við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um rennsli á fossaröðinni í Fljótsdal. Þetta var fyrsta sumarið sem skipulagðar skoðunarferðir voru að fossaröðinni og tókst samstarf ferðaþjónustuaðila og Landsvirkjunar vel.
Orka úr iðrum jarðar
Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Jarðvarmavinnsla fyrirtækisins er því byggð upp í þrepum sem gefur jarðhitasvæðum tíma til þess að aðlagast nýtingu. Á árinu 2013 voru 5.634 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 500,5 GWst af rafmagni.
Djúpförgun skiljuvatns frá Kröflu hófst árið 2002. Síðan þá hefur dregið úr umhverfisáhrifum jarðvarmavinnslunnar á yfirborði sem stuðlað hefur að bættri nýtingu jarðhitakerfisins.
Við jarðvarmavinnslu er lögð áhersla á umfangsmikla vöktun og rannsóknir á háhitakerfum. Með því að leggja mat á vinnslugetu kerfanna má tryggja nýtingu sem er í góðu jafnvægi við innrennsli grunnvatns inn í kerfið. Ítarlega er fylgst með ástandi jarðhitageymisins og borhola ásamt því að efnafræði vökvans er rannsökuð reglulega.
Magn gufu og vatns sem nýtt var til raforkuvinnslu á árunum 2009–2013, ásamt magni skiljuvatns sem djúpfargað var á sama tímabili.
Við vinnslu jarðvarma árið 2013 féllu til 5.190 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni. Þá var 3.067 þúsund tonnum af skiljuvatni dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Magn vatns í jarðhitavökvanum hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár. Magn gufu hefur hins vegar dregist saman og er afkastarýrnun í holunum helsta ástæða samdráttarins.
Dregið úr losun koltvísýrings
Það er markmið Landsvirkjunar að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki. Markvisst er unnið að því að draga úr allri losun koltvísýrings í starfseminni. Með því vill Landsvirkjun einnig leggja sitt af mörkum til að Íslendingar geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
Árið 2013 jókst notkun dísilolíu um 12 %. Aukninguna má rekja til starfsemi framkvæmda- og þróunarsviða sem er breytileg milli ára.
Í starfsemi Landsvirkjunar er jarðefnaeldsneyti notað á bifreiðar, vélar og ýmis tæki. Magn aðkeypts eldsneytis og eldsneytis á bílaleigubíla, sem teknir eru á leigu á vegum fyrirtækisins, er skráð í grænt bókhald. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi fyrirtækisins.
Heildarnotkun Landsvirkjunar á jarðefnaeldsneyti árið 2013 jókst úr 266 þúsund lítrum í 284 þúsund lítra eða um 7%. Aukninguna má rekja til starfsemi framkvæmda- og þróunarsviða sem getur verið nokkuð breytileg milli ára, allt eftir umfangi verkefna.
Notkun dísilolíu og bensíns í starfsemi Landsvirkjunar á árunum 2009–2013.